Hin malasíska Jia Yi Wong sem lenti í alvarlegu bílslysi í Ljósavatnsskarði í síðustu viku segist ekkert hafa getað gert til að forða árekstrinum. Systir hennar, Hui Yi slasaðist illa í slysinu og er nú á sjúkrahúsinu á Akureyri. Þær náðu árekstrinum á myndband fyrir tilviljun og settu á YouTube fyrir fjölskyldu og vini.
ATH: Viðtalið er ótextað en texta þess er að finna hér að neðan
„Við vorum í fríi, komum hingað um miðjan nóvember og vorum í Reykjavík fyrstu þrjár næturnar. Okkar áætlun var svo að leigja bíl og keyra hringveginn. Ég fylgdist vel með veðrinu og vegunum, margir höfðu varað mig við hættunum sem á þeim geta leynst og bílaleigufyrirtækið veitti okkur einnig miklar upplýsingar um vegina. Á hverjum degi athugaði ég með færðina og var viss um að hún væri góð. Svo þegar við ákváðum að fara norður, þann 23. nóvember, tók það okkur langan tíma því ég keyrði svo hægt. Eitthvað um átta tíma. Síðan ætluðum við að vera hér í tvær nætur og skoða hvert gott væri að fara áfram. Daginn eftir var okkur sagt að veðrið væri mjög gott og við gætum farið á Mývatn og komið til baka og gist,“ segir Jia Yi Wong.
Höfðu myndað í hálftíma
Það vakti strax athygli að áreksturinn skyldi hafa verið tekinn upp á myndband. Þær systur höfðu myndað nánast allan tímann sem þær keyrðu um landið. Á myndbandinu sést hvernig ökumaður hins bílsins missir stjórn á honum, fer yfir á rangan vegarhelming og beint framan á bíl systranna.
„Ég keyrði og systir mín tók upp myndbönd. Tilgangurinn var að taka upp til að kynna Ísland fyrir vinum okkar og fjölskyldu heima. Við mynduðum alla leiðina og notuðum símana okkar. Við byrjuðum hér á Akureyri að taka upp þennan dag, landslagið var fallegt og við höfðum keyrt í kannski 25 mínútur þegar við sáum bíl nálgast okkur. Við hugsuðum ekki sérstaklega um hann, mættum mörgum bílum. Allt í einu var hann kominn mjög nálægt og fór að snúast á veginum. Það var gott að ég keyrði mjög hægt, ég gat stöðvað bílinn auðveldlega þegar ég sá hann. Ég gat ekkert annað gert. Þeirri hugsun skaut upp í kollinn á mér, á ég að reyna að beygja og forðast bílinn? En þá fattaði ég að það væri ekki hægt því hinn bíllinn fór svo hratt og ég gat ekki gert það nógu hratt á mínum bíl. Svo ég stoppaði bara,“ segir Jia Yi.
Getur ekki horft aftur
Hún segist ekki hafa geta horft á myndbandið eftir áreksturinn, nema þegar hún klippti það til að setja á YouTube. Ástæðan fyrir því að hún setti myndbandið þangað er einföld
„Ég þurfti að hugsa um leið til að koma þessu til fjölskyldu og vina, því skráin var of stór til að senda þeim öðruvísi. Ég vildi heldur ekki horfa á þetta aftur og aftur með því að senda hverjum og einum. Best var að hlaða þess upp á netið og senda þeim tengil, til að sýna þeim hvað hefði komið fyrir okkur.“
Hljóp um í áfalli
Systir Jia Yi, Hui Yi, var farþegi í bílnum og slasaðist mikið í slysinu. Hún er meðal annars með brákaðan hryggjarlið, sem þýðir að hún verður rúmliggjandi í einhvern tíma og föst á sjúkrahúsi.
„Við vorum mjög heppnar, því báðir bílarnir fóru út af veginum og niður vegöxlina. Ég gat gengið út úr bílnum og beðið um hjálp en það liðu ekki nema fimm mínútur þar til vegfarandi kom og hjálpaði okkur mikið. Hann hringdi á Neyðarlínuna og ég var í áfalli. Hinn ökumaðurinn var mjög slasaður og ég gat ekkert gert fyrir hann né systur mína sem var föst í bílnum okkar. Ég hljóp eiginlega bara um. Svo stuttu síðar kviknaði í hinum bílnum og ég varð frekar hrædd. Ég gat ekki fært ökumanninn frá bílnum, gat ekkert gert nema að bíða eftir sjúkra- og slökkviliði að koma á staðinn,“ segir Jia Yi.
Verða hér fram yfir jól
Samkvæmt ferðaáætlun áttu þeir systur að fara heim síðastliðinn sunnudag, en nú bendir flest til þess að þau þurfi jafnvel að vera hér fram yfir jól. Bróðir þeirra er kominn til landsins til að vera þeim innan handar, enda systurnar báðar enn að vinna úr áfallinu. Framhaldið er óljóst.
„Við höfum ekki hugmynd um hve lengi við verðum hér. Ég mun alls ekki fara héðan án systur minnar og ég verð hér þangað til hún nær nógu miklu bata til að fara heim. Ég lét bróðir minn vita daginn eftir að við værum í lagi og hann kom hingað strax til að hjálpa okkur,“ segir Jia Yi.
Vildu frekar koma um vetur
Hún segir að þegar hugmyndin hafi kviknað að fara til Íslands, hafi ekkert annað komið til greina en að skoða landið um vetur.
„Við vildum sjá norðurljósinn og allan snjóinn. Margir skandinavískir vinir mínir sögðu mér að það yrði erfitt að keyra hér og við yrðum að fara gætilega. Ég las mikið áður en ég tók ákvörðunina um að gera það. Við keyrðum mjög hægt, sjaldan á meiri hraða en fjörutíu kílómetra á klukkustund. Þess vegna tók það mjög langan tíma að keyra hingað norður. Ég var alltaf mjög örugg um að geta stoppað bílinn ef ég skyldi missa stjórnina. Mér tókst að stoppa bílinn en ég gat ekkert gert til að koma í veg fyrir slysið.“
Hjálpin ekki sjálfgefin
Hún segist mjög þakklát öllum þeim sem hafi hjálpað sér, sem sé alls ekki sjálfgefið.
„Tíminn frá slysinu hefur verið mjög erfiður og öll hjálpin hefur verið okkur mjög góð, alveg frá því að fyrsti vegfarandinn stöðvaði. Fullt af fólki sem þekkir okkur ekkert hjálpaði okkur, lét okkur hafa auka yfirhafnir því það var mjög kalt. Ég veit ekki einu sinni hvað þetta fólk heitir, það gaf okkur líka mikið af heitu vatni. Sumir voru Íslendingar og aðrir ferðamenn,“ segir Jia Yi.
Og hún þakkar líkar líka starfsfólki hjá slökkviliði, lögreglu og spítala.
„Til hvers einasta sem hjálpaði okkur, þeim í sjúkrabílnum, hjúkrunarfræðingum, læknum og sjúkraþjálfurum. Án þeirra værum við ekki á lífi í dag. Því þetta er ekki bara líkamlegt, heldur andlegt líka. Við erum langt frá okkar heimaslóðum og lendum í svona slysi - ég get ekki þakkað þessu fólki nógu mikið,“ segir Jia Yi.
Hún vill líka þakka hótelinu og bílaleigunni. Starfsmenn þeirra hafi komið vel fram við þær systur.
„Það er ótrúlegt, bílaleigan sagði við okkur að hugsa ekkert um bílinn, við sjáum um það. Þið systurnar hugsið bara um ykkur sjálfar, sögðu þeir. Hótelið gefur okkur fría gistingu og þetta hefur allt komið mjög á óvart. Fólkið hér er svo ótrúlega gott. Ég get ekki annað en sagt, takk kærlega fyrir alla hjálpina þessa síðustu viku, segir Jia Yi að lokum.