„Ég vissi ekki að það væri svona erfitt að komast út af spítalanum aftur,“ segir Þórhalla Karlsdóttir, 91 árs sem verður flutt af Landspítalanum á hjúkrunardeild á Akranesi á morgun. Hún vill alls ekki fara og segir að þá verði að flytja hana þangað með valdi.

„Ja manni líður ekki nógu vel, ég er alltaf með ótta hvað á að gera við mig, þess vegna er ég alltaf hrædd, ég veit ekki hvað verður gert við mig.“

Þórhalla er fædd 1926. Hún bjó lengi í Kópavoginum þar sem hún og eiginmaður hennar ráku verslun en býr nú í Reykjavík. Hún var lögð inn fyrir þremur vikum og hefur verið í rannsóknum. 

Elfu Dís Austmann, dóttir Þórhöllu segir að það eigi að útskrifa hana á morgun. „Og flytja hana upp á Skaga án þess að hún þekki nokkurn mann þarna upp frá.“

Þórhalla er ein af þeim 100 sem liggja á Landspítalanum sem ekki hefur verið hægt að útskrifa því hvergi er laust pláss á hjúkrunarheimili en hún er á biðlista eftir plássi á höfuðborgarsvæðinu.    
 
Þórhalla: „Ég er ekki að segja að ég vilji vera hérna en upp á Skaga vil ég aldrei fara. Ég færi aldrei þangað, þá getið þið bara látið mig í kistuna.“

Berglind Ólafsdóttir barnabarn Þórhöllu segir að það sé rosalega sorglegt að fylgjast með þessu. „Hún er alltaf að brotna niður og fara að gráta, ofsalega kvíðin og líður ekki vel. Þetta er bara algerlega óásættanleg staða að svona skuli vera komið fram við eldri borgara og það við þá sem manni er kærast.“ 

Berglind og Elfa höfðu samband við þrjá ráðherra, heilbrigðisráðherra, velferðarráðherra og forsætisráðherra.

Elfa: „Ég spurði, hvert á ég að leita? Getur þú aðstoðað mig? Engin viðbrögð, engin viðbrögð, þeir sjá þetta ekki.“

„Heldur þú að fólkið þitt, dóttir þín og barnabörn gætu heimsótt þig þangað ef þú færir? Sko ég er viss um að þau myndu gera allt sem þau gætu fyrir mig en ég vonast til þess að það komi aldrei til mála af því ég læt ekki fara...ég verð þá bara tekin með valdi.“
 
Hvað myndir þú helst vilja að gerðist? Bara ég gæti bara farið heim til mín og inn á mitt eigið heimili og verið þar með svona aðstoð, einhver hjálpaði mér þar kannski.“

„Ég kem hérna bara eins og hver annar sjúklingur ég hélt að það yrði ekki svona erfitt að komast út af spítalanum aftur kannski eða hvort ætti bara að halda manni í fangelsi, ég veit að ég segi sannleikann.“

Fjallað var fyrst um málið í DV.