Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og ein sexmenninganna sem töluðu ósmekklega um samstarfsfólk sitt á þingi á barnum Klaustri, segist vera að hugsa sína stöðu innan Alþingis. „Mér finnst afar leitt hvernig við flest höguðum okkur þetta kvöld,“ segir Anna Kolbrún.

Þingmennirnir heyrast meðal annars gera grín að fötluðu fólki í upptökunni. Málefni fatlaðs fólks heyra undir velferðarnefnd Alþingis sem Anna Kolbrún situr í. „Ég ætla að hugsa mjög vel mína stöðu. Finnst mikilvægt að ég beri ábyrgð á sjálfri mér. Ég, verandi í velferðarnefnd, mér leið ekkert vel þar inni í dag,“ segir Anna Kolbrún sem var að koma af fundi velferðarnefndar þegar fréttastofa náði af henni tali.

Hún bætir við að orðfæri þingmannanna þetta kvöld fari alls ekki saman við störf hennar í velferðarnefnd. „Ég á mér engar málsbætur. Ég tek fulla ábyrgð á mínum orðum í þessu. Ég hef eytt töluverðum hluta dagsins í að biðja fólk afsökunar og ég geri það að heilum hug,“ segir Anna Kolbrún jafnframt.

Hún er sátt við að málið fari til forsætisnefndar Alþingis. „Ég ímynda mér að við tökum áfram þessa umræðu innan okkar þingflokks og þá sérstaklega þeirra sem voru þarna um kvöldið. Ég er mjög sátt við að erindinu verði vísað til forsætisnefndar, mér finnst rétt að gera það í þessari stöðu. Mér finnst ágætt að velta við öllum þeim steinum sem þarf að klára og ég vil að það verði gert fljótt og vel,“ segir Anna Kolbrún.