„Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld“ er forvitnileg sýning sem opnaði í vikunni á Háskólatorgi við Háskóla Íslands. Þar sameinast nemendur Myndlistarskólans í Reykjavík og Daníel G. Daníelsson sagnfræðinemi í því að koma andliti á nokkra eftirlýsta Íslendinga eftir greinargóðum mannlýsingum úr Alþingisbókum Íslands frá sautjándu og átjándu öld.

„Þetta er sprottið úr rannsóknum sem ég vann í sumar þar sem ég skoðaði gamlar Alþingisbækur, sem eru sautján hnausþykk bindi og ég hreinlas þau í sumar undir leiðsögn Sigurðar Gylfa Magnússonar prófessors í sagnfræði, sem ég átti að skoða um tvö hundruð mannlýsingar af einstaklingum af öllum stærðum, gerðum og stéttum og leita þar að fötluðu fólki,“ segir sagnfræðineminn Daníel G. Daníelsson en verkefnið sem hann lýsir var hluti af Öndvegisverkefnum Rannís sem kallast Fötlun fyrir tíma fötlunar. Þó það verkefni sé enn í gangi er hlutverki Daníels lokið. Eftir það hugsaði Daníel hvort ekki væri hægt að vinna áfram með þessar tvöhundruð óvenjugreinargóðu mannlýsingar sem mátti finna í öllum þessum ritum og úr því spannst þessi hugmynd. „Þá hafði ég samband við Myndlistarskólann í Reykjavík og þau tóku bara mjög vel í þetta, sem var frábært,“ segir Daníel.

Eftirlýstir Íslendingar af öllum stærðum og stéttum

„Þetta er allt frá því að vera sýslumenn yfir í niðursetninga,“ segir Daníel og það vekur óneitanlega athygli að þarna skuli finnast sýslumenn einnig. „Það var einmitt þarna sýslumaður en það er vafaatriði hvort það hafi verið stríðni, eins konar vinnustaðahrekkur en þar er nefnt að hann sé mikið drykkjusvín. Þetta eru mögulega einhverjar sýslumannaerjur þess tíma,“ segir Daníel sem kemur inn á það að auki hversu óvenjuítarlegar lýsingarnar séu á einstaklingum í bókunum, á stundum furðulega ítarlegar. „Það er ekki bara verið að taka fyrir andlitsdrætti, aldur eða húðlit. Fólki er oft lýst bólugröfnu, sóttlera, það er þegar fólk er að jafna sig eftir bólusótt. Sköllótt af óhreinindum auk fjölmargra annarra lýsinga en sömuleiðis er verið að lýsa atferli fólks, hvernig viðmót viðkomandi er með gagnvart þeim sem er að lýsa,“ segir Daníel jafnframt.

„Jújú, kannski er þarna frægastur Fjalla-Eyvindur Jónsson og Halla Jónsdóttir sem voru burtstrokin 1765 og lýst eftir þá en þau eru án efa frægustu útlagar Íslands,“ segir Daníel. Það vakti mikla athygli Daníels í hans rannsóknum hversu mikill munur væri á mannlýsingum á milli kynja. Það kemur glöggt fram meðal annars þegar lýsingar á þeim Eyvindi og Höllu eru bornar saman. „Hann er sagður bólugrafinn en þó geðþýður, hirtinn og hreinlátur. Hún er hins vegar sögð dimmlituð í andliti, skoleygð og brúnaþung. Svo er hún svipill og ógeðsleg. Það er ekkert verið að draga undan þar,“ segir Daníel en hann telur það frekar líklegt að það hafi ætíð verið karlar sem drógu upp þessar lýsingar. „Svo er Jón Hreggviðsson þarna líka. Hann er auðvitað aðalsöguhetja Íslandsklukkunnar. Lýsingin á honum er afar skrautleg; hann er í lægra lagi en að meðalvexti réttvaxinn, þrekvaxinn, fótagildur með litla hönd. Koldökkur á hárslit, lítt hærður, skeggstæði mikið en nú afklippt. Þá síðast sást móeygður, gráfölur í andliti, snarlegur og harðlegur í fasi,“ segir Daníel um lýsingu á útliti Jóns Hreggviðssonar. Daníel vill meina að þessar mannlýsingar hafi verið það greinargóðar að það hafi reynst auðvelt að teikna upp eftir þeim. Altént fyrir þá sem kunna að teikna en þar segist hann ekki koma sterkur inn.

Nemendur við teiknideild Myndlistarskólans lögðu mikla vinnu í teikningarnar, undir handleiðslu Önnu Cynthiu Leplar og mikil heimildarvinna liggur að baki hverri og einni mynd. Það var hægt að grafa upp hvernig fólk var klætt, hvort það var með sítt eða stutt hár, skóbúnað þeirra auk andlitsdrátta. „Þetta var örugglega pínu snúið fyrir þá teiknara sem ekki höfðu litið mikið í sögubækur eftir grunnskóla. Þetta var krefjandi bæði fyrir þá og svo mig að leiðbeina. Þetta verkefni fór hins vegar fram úr mínum björtustu vonum,“ segir Daníel sem er himinglaður með hvernig til tókst. Teikningarnar séu afar nákvæmar og þarna birtast ítarlegir andlitsdrættir fólks. „Þetta er býsna verðmætt fyrir menningararf Íslendinga, að geta gengið að þessu vísu,“ segir Daníel.  

Aðspurður að því hvort þessar lýsingar séu mögulega mun betri og ítarlegri heldur en þær myndir sem við höfum áður séð af fólki þess tíma segir Daníel það örugglega staðreynd. „Ég er sjálfur orðinn hundleiður á því að horfa á sömu gömlu málverkin af embættismönnum og merkum körlum, þarna er hin íslenska alþýða komin með andlit,“ segir Daníel að lokum. Sýningin Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld er opin öllum á þeim tíma sem Háskólatorgið er opið og verður hún uppi við til 8. febrúar.