Magnús Guðmundsson flytur pistil um jólabókaflóðið síðasta. Magnús skoðar nokkrar hliðar flóðsins í pistlum í Víðsjá á Rás 1 á næstu vikum.
Magnús Guðmundsson skrifar:
Jólabókaflóðið er löngu gengið um garð og allt er komið á útsölu. Fyrstur kemur, fyrstur fær – allt á að seljast eða eitthvað svoleiðis.
Bækurnar sem komu út fyrir jólin eru í það minnsta ekki lengur í sínu upphafna aðalhlutverki í íslensku samfélagi eins og á aðventunni. En vonandi skildu þær eitthvað eftir af sér innra með okkur; einhverja hugsun eða tilfinningu sem færir okkur örlítið fram á við. Eitthvað sem fer aldrei upp í hillu eða ofan í pappakassa heldur fylgir okkur hvert sem við förum.
Eða er það ekki það sem er fólgið í því að vera bókaþjóð?
Að lifa með bókum, lesa þær, tala um þær og anda þeim að sér. Eða snýst það bara um að velja þær í jólagjafir og leyfa þeim að taka pláss í lífi okkar í sex vikur á ári? Vonandi ekki.
Þetta er samt gallinn á jólabókaflóðinu sem er um margt svo dásamlegt. Á þeim fáu vikum sem bækurnar flæða yfir landsmenn nær aðeins brot þeirra frábæru bóka sem eru í boði að rísa upp á öldutoppana og inn á heimili landsmanna. Eftir flóðið liggur því eftir fjöldi góðra bóka sem kannski frekar fáir hafa keypt og jafnvel færri lesa, illu heilli.
Þess vegna förum við í könnunarleiðangur í næstu bókabúð eða á bókasafn og leitum að gulli. Litumst um eftir góðum bókum sem eiga við okkur erindi eða geta gert skammdegið bjartara og lífið betra. Gert okkur betri.
Og hvar er þá betra að byrja en innan um ljóð. Upphaf og endi alls.
Í huganum ráðgeri ég morð. Á það að gera mig að betri manni? Ljóðabók sem heitir: Í huganum ráðgeri ég morð og er eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur, er reyndar einmitt svona moli sem getur vel gert mann að aðeins illskárri einstaklingi og ekki veitir af – get ég í það minnsta sagt fyrir sjálfan mig.
Eyrún Ósk er skáld, leikskáld, rithöfundur, leikari og leikstjóri sem hefur verið afkastamikil á sínum fjölbreytta ferli. Og eitt af því sem gerir ljóð hennar svo heillandi og skemmtileg er einmitt hvernig hún tengir saman form og heima. Leikhús og líf í ljóði.
Tökum dæmi:
Þegar ljósin slökkna
og áhorfandinn hverfur
út í nóttina
situr leikarinn
einn í þrúgandi þögn
alls þess
sem eitt sinn var sagt
og ekki sagt
og harmar
endinn.
Og rétt eins og í leikhúsinu er húmorinn bráðnauðsynlegur – hvernig sem á er litið og sem betur fer er hann aldrei langt undan í ljóðum Eyrúnar Óskar.
„Hugsaðu jákvætt,“
kallar Hamlet til Lés konungs,
sem stendur fremst á sviðinu með Kordelíu
örenda í örmum sínum.
„Það er léttara.“
Ljóðið er alla jafna ekki fyrirferðarmikið í jólabókaflóðinu margumrædda en það þýðir ekki að það séu ekki góðir tímar í ljóðlist á Íslandi, langt frá því. Ljóðið er á uppleið ef eitthvað er. Lesendahópurinn virðist vaxa hægt og örugglega, vinsældirnar aukast og skáldum fjölgar.
Á meðal athyglisverðari skálda af yngri kynslóðinni sem er meira en vert að gefa gaum er Arngunnur Árnadóttir tónlistarkona. Fyrir fimm árum sendi hún frá sér ljóðabókina Unglinga og þremur árum síðar skáldsöguna Að heiman, sem hlaut verðskuldaða athygli.
Ljóðabókin Ský til að gleyma, var svo framlag Arngunnar til síðasta jólabókaflóðs. Ljómandi fín bók, uppfull af skemmtilegum yrkisefnum sem standa okkur bæði fjær og nær.
Eða eins og segir í titilljóði bókarinnar:
Ský
til að gleyma
kulda sjávarins
umhverfis landiðEyja
einu sinni
ónáðaði þig
ekkert fólk
Og hvaða bókafíkill kannast ekki við fyrstu hugsun í þessu skemmtilega ljóði?
Ég er að reyna að losa mig við bækur.
(þetta sem maður raðar í hillur
til að segja: ég er þessi tegund
af intellektúal)Það gengur ekki betur en svo
að ég kom heim frá lækni
með tvær bækur
af dvalarheimili aldraðra
hinum megin við ganginn.Einu sinni
átti einhver þessar bækur.(drakk í sig: Íslenskar nútímabókmenntir
Kristins E. Andréssonar
fagnaði þýðingu Sigfúss Daðasonar
á Þögn hafsins eftir Vercors)Nú situr herbergisfélagi hans
á göngugrindinni.„Hvaða forseti Bandaríkjanna
sagði af sér vegna spillingar árið 1974?“
segir hjúkrunarkonan
sem leiðir spurningaleikinn.„Nixon,“
svarar hann.
Já, þið heyrðuð rétt, það kemur hjúkrunarkona við sögu í þessu skemmtilega ljóði eftir Arngunni Árnadóttur og það er allt í góðu lagi vegna þess að í ljóðum má allt eða það ætla ég að minnsta kosti að leyfa mér að vona.
Næsta bók sem ég opna gefur það reyndar sterklega til kynna að allt megi í ljóðum. Ljóðabókin Fræ sem frjóvga myrkrið, eftir Evu Rún Snorradóttur er ákaflega skemmtileg bók sem hefur að geyma þessa fróðlegu upphafsáletrun:
Baubó er grísk gyðja sem var látin gleymast. Hún kom á sorglegustu augnablikunum í helgiathöfnum og harmleikjum og sýndi á sér píkuna til að létta stemninguna. Hún táknar gamansamt og leikandi kynfrelsi kvenna. Hún hegðar sér ósæmilega. Hún er áminning um að allt mun breytast, líða hjá. Ekkert varir, gott eða slæmt. Við munum frjósa, þiðna, blómstra og fölna, best að reyna að mæta því með óttaleysi.
Og Eva Rún mætir yrkisefnum sínum svo sannarlega af óttaleysi og þótt húmorinn sé aldrei langt undan er undiraldan oft þung. Rétt eins og kollegi hennar Eyrún Ósk, þá nýtir Eva Rún sér leikhúsið í sinni ljóðlist sem er okkur líka ágætis áminning um að flytja ljóð. Lesa þau hvert fyrir annað og njóta þeirra saman eins og er tilvalið að gera með þetta ljóð hér þar sem undiraldan er þung.
Ung kona með trúðsandlit talar í símaklefa sem einu sinni stóð á fjölförnum stað.
Halló, halló.
Heyrist í mér?
Ok. Er þetta Landspítalinn, áfallamiðstöð?
Já, ég þarf að panta hjá þér áfallahjálp.
Hvað? Hmmm. Ég er að ranka við mér eftir eitt langt aflíðandi áfall.
Fyrir nokkrum árum. Áratugum. Þúsund árum.
Fyrnt? Hvað meinarðu?
Ég hefði aldrei getað komið innan þess tímaramma. Ég er bara að fatta núna fyrst að þetta er áfall. Eða áföll. Ég vissi það bara ekki. Halló?
Fokk.
Í fyrri ljóðabálki bókarinnar er að finna konur sem koma saman til þess að rifja upp gamla sukkferð til sólarlanda. Ferð sem verður að teljast frelsandi fyrir konur sem hafa þurft að komast burt frá drunga og oki karllægs samfélags norður í hafi. Konur sem hljóta að hafa þjáðst af útþrá á löngum dimmum vetrum eins og nú ríkir.
Og hvílík tilviljun! Hér er dettur einmitt úr hillunni ljóðabókin Jökulhvörf, eftir ungt skáld sem heitir Kári Tulinius og opnast á ljóði sem heitir Útþrá.
Á meginlöndum eru höfuðáttirnar tíu
en á eyjum eru þær mun fleiri
jafnvel endalaust margar
þegar haft er í huga að hafsbotninn
gengur ofan í möttulinn
þar sem jarðskorpuflekar mætastVið sem fæðumst á eyjum
vitum að þegar áttirnar
eru endalaust margar
er í raun og veru bara til ein átt
burt
Og kannski er komin tími til þess að koma sér burt frá þessari jöklaeyju og fólkinu sem Kári er að yrkja um í þessari fínu bók? Það er ekki eins og hugmyndin hafi ekki komið upp í kollinn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar en þá rifjast líka upp fyrir manni hvað Ísland hefur að bjóða og þar er bókakosturinn þessi líka ljómandi fíni plús.
Það er bara svo gaman að lesa góðar bækur og það leynir sér ekki af þessu róti að af nógu er að taka. Bókabúðir og bókasöfn eiga til heil lifandis ósköp af brakandi ferskum íslenskum ljóðabókum sem bíða eftir ykkur hlustendur góðir. Og hvað gæti verið betra í íslenska vetrardrunganum en einmitt að lesa ljóð. Einn með sjálfum sér, með ástinni sinni, fyrir börnin, ættingja og vini og allt þetta fólk í lífi hverrar manneskju.
Að lesa ljóð er uppbyggilegt og gefandi, það er innsýn inn í líf og samfélag okkar sem norpum á þessari eyju norður í Atlantshafi. Það er einfaldlega skemmtun sem engin ætti að láta fram hjá sér fara.
Kæru lesendur: Það er rífandi stuð að lesa ljóð – góðar stundir.