„Ef klukkan er sjö þá erum við á Íslandi“

16.07.2017 - 13:00
Albert OM er katalónskur sjónvarps- og útvarpsmaður sem sér um gríðarlega vinsælan þátt á katalónsku útvarpsstöðinni RAC1 á hverjum virkum degi, sem heitir „Islàndia“, eða einfaldlega Ísland. Rúmlega 150 þúsund manns hlusta á Ísland á hverjum degi.

Ísland er annar heimur

Þátturinn er á dagskrá alla virka daga frá klukkan sjö til hálf níu og hefst alltaf á sömu setningunni: „Ef klukkan er sjö þá erum við á Íslandi.“ Hugmyndina að nafninu fékk Albert þegar hann heimsótti Ísland fyrir þremur árum. „Ég elska landið. Ég þekki ekki eina einustu manneskju sem hefur farið til Íslands og ekki líkað vel við það. Flugið er fjórir og hálfur klukkutími, þetta er nokkuð nálægt en er samt annar heimur, algjörlega annar heimur,“ segir Albert.

Starfsfólk Islàndia þarf líklega að vinna aðeins í víkingaklappinu sínu

Albert vildi gera síðdegisþátt sem fjallaði ekki um íþróttir eða stjórnmál, eins og allir aðrir síðdegisþættir í Katalóníu. Honum þótti Ísland vera viðeigandi nafn, því hann sá hann fyrir sér sem eyju í flóru útvarpsþátta. Í stað íþrótta og stjórnmála fjallar Albert aðallega um fólk, segir sögur þeirra og ræðir við áhugaverða einstaklinga.

Veðja á hitastigið í Reykjavík

Albert segir að fólk í Barcelona hafi mjög jákvæða sýn á Ísland og það hjálpi þættinum. Í byrjun þáttar, þegar veðrið í Katalóníu er skoðað, er einnig farið yfir hitatölur frá Reykjavík, sem Katalónum þykir að sjálfsögðu bráðfyndið. „Við erum með veðmál, hvort þið náið 15 gráðum fyrir lok júlí. Það er mikilvægt að þið náið því, ég er búinn að veðja á það,“ segir Albert.

Mynd með færslu
 Mynd: Islàndia RAC1  -  Facebook
Albert Om ræddi við Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra, í heimsókn sinni í janúar

Stöku sinnum er er Ísland jafnvel enn stærri hluti þáttarins, en Albert og samstarfsmenn hans ferðuðust hingað til lands í janúar, ásamt hópi fólks sem unnið hafði Íslandsferð, og sendi þáttinn út beint frá Súlnasal Hótel Sögu. Þá sendi hann einnig út beint frá Íslandstorginu í Barcelona á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Sérstakir bolir með slagorðinu „Ef klukkan er sjö þá erum við á Íslandi“ voru framleiddir og afhentir Katalónum sem voru á leið til Íslands í sumar en á móti þurfa þeir að senda þættinum mynd af sér í bolnum á Íslandi. Rúmlega 400 bolir voru gerðir og er upplagið uppurið.

Felix Bergsson hitti Albert Om í Barcelona og ræddi við hann fyrir þáttinn Laugardagsmorgna á Rás 2. Viðtalið í heild má heyra hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
Atli Þór Ægisson
vefritstjórn
Laugardagsmorgnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi