Ásmundur Sveinsson myndhöggvari var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Hann var þeirrar skoðunar að listin ætti heima hjá fólkinu sjálfu sem hluti af landslagi borgarinnar og honum var annt um að á Íslandi byggðist borg sem væri bæði „praktísk og falleg“.

Ásmundur var sannfærður um að það væri ómögulegt að leggja stund á abstraktlist án þess að áhugi fyrir byggingarlist sprytti fram. Hann vildi opna augu Íslendinga fyrir umhverfi sínu og að Reykvíkingar hefðu skoðun á því hvernig borg þeir byggðu.

Íslendingar geta rifist um vísur — en ekki götur og hús

„Í því sambandi hef ég verið dálítið svæsinn,“ sagði Ásmundur í sjónvarpsviðtali við RÚV 1970. „Ég hef verið að segja að Íslendingar eru bókaormar; þeir geta rifist um vísu og geta eytt mörgum dálkum í blöðum um hvort vísan sé rétt kveðinn, eða kannski bara alls ekki kveðin. Það er náttúrulega allt í lagi, ég vil hafa góðar vísur. En hafa þeir ekki auga fyrir því að nú er verið að byggja nýja borg hér og eyða mörgum milljónum í það? Það er aldrei rifist um götur og hús í blöðunum. Ég vil láta vera krítik á þessu! Þegar arkitekt gerir gott, þá á að hæla honum, en ef hann gerir vont, þá á að húðskamma hann. Þetta er ekki gert! Og af hverju? Af því að fólki er sama hvað það sér. Það er ekki búið að opna augun fyrir því að við erum að skapa hér bæ, sem við eigum öll.“

Ásmundur sagði að ábyrgð þeirra sem komu að uppbyggingu Reykjavíkur væri mikil gagnvart komandi kynslóðum. „Ég held að það þurfi bæði í skólum og víða bara að koma við þetta, að maður hafi nautn af að gera fallegan bæ og praktískan,“ sagði hann í sama viðtali. „Ég er alveg handviss um að næsta kynslóð krítíseri þennan bæ miklu meira heldur en einhverja vísu, hvort hún sé illa kveðin eða alls ekki kveðin. Því þetta þýðir svo mikið í framtíðinni. Það er framtíðin sem á að taka við þessum bæ og okkar villur verða áreiðanlega reiknaðar.“

Ásmundarsafn undir egypskum og grískum áhrifum

Árið 1942 fékk Ásmundur umráð yfir landsvæði við Þvottalaugaveg, þar sem nú er gatan Sigtún. Um svipað leyti hóf hann byggingu tvílyfts húss með íbúð á aðalhæð og vinnustofu í steyptri hvelfingu. Í húsinu er, eins og flestir vita, í dag rekið safn. 

Húsið var alfarið hugarsmíð Ásmundar og er einstök tilraun í sögu íslenskrar húsagerðarlistar. „Það er annað líka í húsbyggingareðli mínu að yfirvöldin hafa leyft mér að byggja eins og mig langaði til. Ég bjó til skissur að þessu og ég lít á það líka sem nokkurs konar höggmyndalist.“ 

Í formi þess gætir áhrifa frá húsagerð Grikklands og Tyrklands, sem Ásmundur sá sem fyrirmynd að nýju íslensku byggingarlagi, sem væri sniðið að sérkennum hins skóglausa landslags.

„Árið 1940 var ekkert hér annað en tún og gras. Allt þetta sem þið sjáið hér er gert eftir mig einan eiginlega, að mestu leyti. Það var bara grasflötur hérna,“ sagði Ásmundur um hvernig landið horfði við honum þegar hann hóf byggingu hússins.

Fjallað var um Ásmund Sveinsson í sjónvarpsþættinum Íslendingar.  Þættirnir eru unnir úr dagskrárefni í safni RÚV, sem geymir sögu íslensku þjóðarinnar í máli og myndum í nærfellt hálfa öld í dagskrárefni og fréttum. Umsjón með þáttunum og dagskrárgerð annast Andrés Indriðason dagskrárgerðarmaður. Hann hefur undanfarin sex ár unnið að gerð þessara þátta sem segja frá þjóðkunnum Íslendinga sem fallnir eru frá, ævi þeirra og störfum.