Skandinavísk nýnasistahreyfing er tilbúin að beita öllum tiltækum ráðum til að stofna samnorrænt ríki. Þetta segir talsmaður hreyfingarinnar í Svíþjóð sem fréttastofa ræddi við nú í kvöld, en hreyfingin freistar þess að festa rætur hér á landi.
Fengið margar fyrirspurnir frá Íslendingum
Norræna mótsstöðuhreyfingin, nýnasistahreyfing sem var stofnuð í Svíþjóð árið 1997, vinnur nú að stofnun Íslandsdeildar. Hreyfingin hefur opnað íslenska heimasíðu og dreifibréfum frá henni var dreift í hús á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Hreyfingin er starfrækt á öllunum Norðurlöndunum. En hvers vegna vill hún nú ná fótfestu á Íslandi?
„Af hverju Ísland og af hverju núna? Það er af því við höfum fengið margar fyrirspurnir frá Íslendingum sem telja að við ættum að festa okkur í sessi þar. Við höfum því varpað þeirri spurningu fram í netheimum að Íslendingar sem vilji mynda með sér samtök láti í sér heyra og það er eðlilegt að framhald að við séum á Íslandi,“ segir Pär Öberg, talsmaður Norrænu mótsstöðuhreyfingarinnar í Svíþjóð.
Reiðubúnir að beita öllum meðulum
Hreyfingin hefur það að markmiði að stofna samnorrænt ríki byggt á þjóðernissósíalískri hugmyndafræði, eða nasisma. Öberg segir hreyfinguna vilja fara að lögum en meðlimir séu þó tilbúnir til að gera allt sem í þeirra valdi standi til frelsa fólk úr fjötrum hnattvæðingar.
„Við viljum einfaldlega leysa fólk undan þeim hagsmunaöflum. Og við erum reiðubúnir að beita til þess öllum meðulum.“
„Nú er vakning um allan heim“
Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í vikunni að samtökin væru ekki líkleg til að ná útbreiðslu hér á landi, þar sem þau væru of róttæk. Öberg gefur lítið fyrir skýringar Eiríks.
„Nú er vakning um allan heim og honum skjátlast; pælingar hans og viðhorf deyja út, þau hverfa.“
Íslenskir meðlimir hreyfingarinnar treystu sér ekki í viðtal
Hugmyndafræði hreyfingarinnar gengur út á að afmá hugmyndina um þjóðríkið, sem hingað til hefur ekki náð upp pallborðið hjá íslenskum þjóðernissinnum. Öberg segir að landamæri skipti ekki máli í tilfelli Norðurlandabúa, þeir séu ein þjóð og eitt ríki. Þá segir hann íslenska meðlimi samtakanna ekki hafa treyst sér í viðtal við fréttastofu, og vildi hann ekki gefa upp hve margir þeir væru.
Fjölmargir meðlmir Norrænu mótsstöðuhreyfingarinnar í Svíþjóð og Finnlandi hafa verið dæmdir fyrir ofbeldisverk sem framin hafa verið í nafni hreyfingarinnar.