Eðlilegt að skoða fjármögnun Vaðlaheiðarganga

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnarformaður Greiðrar leiðar, sem á sextíu prósent í Vaðlaheiðargöngum, segir að sveitarfélögin eða aðrir hluthafar ganganna komi ekki með meira fé í gerð ganganna eins og staðan er í dag. Bæjarstjórinn á Akureyri segir hinsvegar eðlilegt að sveitarfélögin í Eyjarfirði og Þingeyjarsýslu velti fyrir sér hvað sé uppi á borðinu í fjármögnun ganganna til að hægt sé að ljúka þeim.

Fjármálaráðherra sagði í fréttum RÚV í gær að hann hyggðist beita sér fyrir því að viðbótarlán verði veitt til að hægt sé að ljúka við gerð Vaðlaheiðarganga. Umframupphæð stendur nú í rúmum þremur milljörðum. Hlutafélagið Greið leið á nú um sextíu prósent í Vaðlaheiðargöngum, en að því standa sveitarfélög á svæðinu auk einkaaðila, meðal annars KEA og Útgerðarfélag Akureyringa.

Pétur Þór Jónasson stjórnarformaður Greiðrar leiðar segir að aukið fjármagn frá hluthöfum hafi verið rætt á síðasta aðalfundi félagsins í fyrra. Þar hafi verið ákveðið að gera það ekki þar sem enn var verið að greiða samkvæmt gildandi samkomulagi. „Þannig að menn mátu það svo að þetta væri búið að taka það mikið í hjá sveitarfélögum, að minnsta kosti sumum hverjum, og stærri hluthöfum, þannig að menn væru ekki tilbúnir að hugleiða meira meðan þetta stæði yfir.“

Þá sé það skoðun hluthafa að framkvæmdin verði hagstæð fyrir ríkið þegar upp verður staðið. Pétur býst ekki við að sú afstaða breytist. „Það er svo annað mál að það er ekkert sem útilokar í sjálfu sér að menn ræði þann möguleika hvort einhverjir aðrir eru tilbúnir að koma þarna inn í stöðunni eins og hún er í dag.“

Akureyrarbær á stærsta hlutinn í Greiðri leið, um fjörutíu prósent. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri segir engar viðræður hafnar um frekari fjárhagslega aðkomu. „Við eigum náttúrulega gríðarlegra hagsmuna að gæta í þessu máli og höfum stutt það alveg frá upphafi. Þannig að ég held að það sé mjög eðlilegt að sveitarfélagið og sveitarfélögun á svæðinu velti því fyrir sér og skoði hvað er uppi á borðinu.“

Aðspurður hvort það sé ekki ábyrgðarhluti hjá bænum að taka þátt í fjármögnun verkefnis sem bærinn hefur stutt svo mjög a segir Eiríkur að þetta sé samfélagsverkefni sem treysti samgöngur fyrir alla landsmenn. „Þannig að aðkoma ríkisins er náttúrulega gríðarlega mikilvæg að þessu verkefni og þetta hefur auðvitað gríðarlega mikil áhrif á samfélagið hér í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum líka, þannig að mér finnst sjálfsagt mál að við skoðun hvað er í spilunum og tökum svo ákvörðun í framhaldi af því.“