Ebba Schram nýr borgarlögmaður

10.08.2017 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ebba Schram er nýskipaður borgarlögmaður hjá Reykjavíkurborg. Þetta segir í tilkynningu í dag. Borgarstjóri sat í ráðninganenfd ásamt borgarritara og starfsmannastjóra Reykjavíkurborgar en borgarráð staðfesti ráðninguna í dag. Ebba hefur áður verið staðgengill borgarlögmanns hjá Reykjavíkurborg og leysir nú Kristbjörgu Stephensen, sem áður gegndi embættinu, af. Tveir sóttu um stöðu borgarlögmanns en síðast þegar staðan var auglýst árið 2003 voru umsækjendur sjö talsins.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að taka þurfi til skoðunar af hverju embættið sé ekki eftirsóknarverðara. „Í þessu sambandi þarf einnig að skoða hvernig staðið hefur verið að ráðningum stjórnenda hjá Reykjavíkurborg á undanförnum árum,“ segir Kjartan í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær og rekur meint stjórnsýslufúsk borgarinnar í kringum ráðningar í stöðu borgarritara og sviðsstjóra. 

Ráðninganefnd segir hins vegar að löglega hafi verið staðið að ráðningunni og auglýsingunni. „Við bjuggumst út af fyrir sig við því að fleiri myndu sækja um,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Sú krafa í auglýsingu að viðkomandi hefði hæstaréttarlögmannsréttindi kynni að hafa haft áhrif.

Ragnhildur Ísaksdóttir, starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar, tekur í sama streng. „Þetta eru færri umsækjendur en hafa verið í önnur sambærileg störf,“ segir hún. „Aftur á móti er sérhæfð krafa í þessa stöðu sem kynni að hafa áhrif.“ 

Af um 1100 félagsmönnum Lögmannafélags Íslands eru 300 með hæstaréttarlögmannsréttindi. Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri félagsins, segir að erfitt sé að segja til um hversu margir umsækjendur teljsit eðlilegur fjöldi í stöðu sem þessa. „Það sem vegur þyngst í þessu eru kröfurnar sem eru gerðar til starfans og þeirra sem sinna starfinu,“ segir hann. Fjöldi umsækjanda geti verið óútreiknanlegur. Þannig hafi 37 sótt um 15 stöður dómara við Landsrétt. „Þar var mun stærra mengi mögulegra umsækjenda en samt ekki nema tveir til þrír umsækjendur á hverja stöðu.“

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV