„Það er einhver rótgróinn áhugi í mér gagnvart sögunni og gagnvart fuglum og hefðum okkur hér og öllu því sem einkennir og einkenndi þennan stað okkar Siglufjörð. Ég hef áhuga á að rækta það og viðhalda því og dúfurnar eru óneitanlea einn þáttur þessa," segir Örlygur Kristfinnsson, fyrrverandi safnstjóri Síldarminjasafnsins á Siglufirði og fuglavinur.

Örlygur er einn þeirra sem hafa í gegnum árin séð til þess að dúfurnar sem lifa villtar á Siglufirði fái húsaskjól og hafi það svona þokkalegt. Hann lítur á það sem samfélagslega skyldu sína enda hafa dúfurnar verið þarna lengur en hann. 

Fyrir nokkrum áratugum voru dúfur í flestum bæjum á Íslandi. Þeim var svo fækkað skipulega og víða sjást þær varla lengur. Á Siglufirði má þó ganga að því vísu að sjá dúfur í miðbænum enda þykir Siglfirðingum vænt um dúfurnar sínar. 

„Ég kem á hverjum degi og gef dúfunum, búinn að gera það í 25 ár,“ segir Sigurlaugur Oddur Jónsson, sem hefur með sér fulla fötu af hveitikorni. „Þær koma heim og ýta á eftir mér ef ég mæti ekki með matinn.“