Egypska drottningin Nefertiti dó fyrir meira en 3000 árum en lifir samt að eilífu í glerkassa í Berlín. Halldór Armand segir okkar upp og ofan af tímalausri fegurð hennar í pistli dagsins.
Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:
Neferneferuaten Nefertiti var egypsk drottning sem fæddist árið 1370 fyrir Krist. Eiginmaður hennar var faraóinn Akhenaten. Saman stóðu þau hjónin fyrir trúarlegri byltingu í Egyptalandi þar sem aðeins einn guð var tilbeðinn, Aten, sem er diskur sólarinnar, og mögulega mörkuðu þessi tímamót upphaf eingyðistrúar. Margir telja einnig að Akhenaten hafi verið faðir Tutankhamuns, sem síðar tók við, en DNA-rannsóknir benda til þess að Nefertiti hafi ekki verið móðir hans. Hún var semsagt líklega stjúpa kappans. Þá telja ýmsir fræðimenn að Nefertiti hafi ráðið yfir Egyptalandi um hríð eftir að eiginmaður hennar féll frá, áður en Tutankhamon tók svo við ca. 1332.
Eftir Akhenaten liggur lofsöngur sem sunginn er til dýrðar sólguðinum Aten og hér er brot úr honum í minni þýðingu.
Þú sjálf ert æviskeið, hver manneskja lifir eftir þér.
Augu allra hvíla á fegurð þinni uns þú hnígur til viðar.
Öllu striti linnir þá þú hvílist í vestri.
Þegar þú ríst örvar þú alla fyrir Konunginn.
Hver einasti fótleggur hrærist síðan þú grundvallaðir jörðina.
Þú vekur þá fyrir son þinn sem kom af þínum líkama.
Konunginn sem lifir samkvæmt Maat, drottinn landanna tveggja.
Nefer-khe-prure, sá eini kominn af Ra.
Sonur Ra, sem lifir samkvæmt Maat, drottinn kórónunnar.
Akhenaten, mikill á sinni ævi,
Og hin mikla drottning sem hann elskar, drottning landanna tveggja,
Neferneferuaten Nefertiti, að eilífu lifandi.
Til er mögnuð ópera eftir Philip Glass um Akhenaten þar sem faraóinn og Nefertiti syngja yfir þjóð sinni og tilkynna um nýtt tímabil í sögu hennar. Margir hlustendur kannast eflaust við Nefertiti og hafa kannski barið hana augum á egypska safninu í Berlín. Brjóstmyndin af henni á safninu er einn þekktasti gripurinn sem er til frá forn-Egyptalandi og hefur verið endurgerð ótal sinnum. Þökk sé þessari brjóstmynd, sem er frá árinu 1345 fyrir krist og er talin vera eftir höggmyndasmiðinn Thutmose í ljósi þess að hún fannst á vinnustofu hans í Amarna í Egyptalandi árið 1912, er Nefertiti ein þekktasta konan frá klassíska heiminum – hún er sögulegt fegurðartákn, enda er brjóstmyndin af henni sláandi glæsileg. Hún er meðal helstu menningarverðmæta Berlínarborgar og hefur valdið deilum milli Egypta og Þjóðverja alveg síðan hún kom fyrst fyrir sjónir almennings árið 1924, en egypskir ráðamenn og sérfræðingar fengu ekki að sjá myndina áður en hún var flutt úr landi af sínum tíma af þýska fornleifafræðingnum Ludwig Borchardt.
Á Nýja safninu í Berlín hvílir brjóstmyndin í veglegu glerhylki í dimmu herbergi. Ljós í loftinu beinast að henni og það er sem hún fljóti í loftinu. Þrír alvöruþrungnir menn í aðeins of víðum jakkafötum og með rauð bindi arka um gólfið og stara á safngesti, reiðubúnir að stökkva til ef einhver gerir sig líklegan til þess að veiða upp myndavél. Þegar styttist í lokun safnsins á köldum mánudegi er nægilega lítið af fólki til þess að safngestur komist alveg upp að kassanum og geti starað á brjóstmyndina úr nokkura sentimetra fjarlægð. Og glæsileg er hún. Nefertiti er sláandi falleg. Það hefur aðeins kvarnast úr blárri kórónu hennar og hún saknar hluta eyra sinna og í hana vantar vinstri augasteininn en andlitið er lýtalaust, hlutföllin fullkomin. Þar sem safngestur starir í dáleiðandi augu hennar, starir ofan í sögulegt dýpi hennar 3.500 ára gamla augnaráðs, getur hann ekki varist því að hugsa að Nefertiti gæti verið módel árið 2018, hún gæti selt manni sykurlausa jógúrt, blæjubíl og lopafatnað.
Og hvað er það sem ég er raunverulega að stara á? Ég olnboga mig smám saman fram úr öðrum safngestum, stugga þeim örlítið til hliðar, fer inn í persónulega rýmið þeirra til þess að ryðja þeim úr vegi, og stend loks beint fyrir framan styttuna, hún horfir beint á mig, 3.500 ára gömul, drottning landanna tveggja, starir í augu mín án þess að segja nokkuð, 3.500 ár stara í augu mín, mannkynssagan starir í augu mín, og það er eins og hún segi; þú ert hið stundlega og ég er hið eilífa.
Já, það er eitthvað trúarlegt við þessa upplifun og ég held að það hljóti að vera ástæða þess að allur þessi mannfjöldi kemur hingað til þess að vera nálægt Nefertiti. Brjóstmyndin er ótrúlega falleg, en það er fegurð á hverju strái, þannig séð. Það þarf ekki að fara á safn í Berlín að skoða egypskan forngrip til að sjá eitthvað fallegt.
Nefertiti er meira en fegurð, hún er sú fegurð sem hefur brotið utan af sér hlekki tímans, og kannski er of langt gengið að segja að sú upplifun að stara í augu hennar jafnist á við að stara inn í augu eilífðarinnar, en það er einhver vottur af því, það er einhver keimur af eilífð þarna, í þessum 3.500 árum, í þessum fróma svip, sem óhagganlegur hefur fylgst með mannkynssögunni líða hjá, séð hugmyndir koma og fara, þjóðir verða til og hverfa í gleymskunnar dá, konungsríki rísa og hníga.
Sagt er að Nefertiti sé ímynd kvenlegrar fegurðar, en ég held að það sé ekki rétt, nei, hún er ímynd sjálfs óforgengileikans, fegurðarinnar sem tíminn bítur ekki á og hvorki er kvenleg né karlmannleg, og þannig er hún áþreifanlegur vitnisburður um að kannski sé það rétt sem einhver sagði, að hið eilífa sé aðgengilegt gegnum hið stundlega, að leiðin inn í óendanleikann liggi einmitt gegnum það sem er endanlegt.
Á sama hátt held ég að þetta sama aðdráttarafl – togkraftur tímaleysisins – geri að verkum að maður finnur fyrir sérkennilegri ró á stöðum eins og hótellobbýum, flugvöllum og stórmörkuðum sem eru opnir allan sólarhringinn. Þetta eru ekki staðir sem margir halda upp á, en hafa eitthvert seiðmagn vegna þess að þeir standa fyrir utan tímann í þeim skilningi að þar inni skiptir ekki máli hvað klukkan er. Að því leyti eru þeir okkur vísbending um himnaríki, kannski ekki mjög merkileg vísbending, en vísbending engu að síður, og leyfa okkur að upplifa – stundarkorn – tímaleysi.
Hið eilífa finnst gegnum hið stundlega – við mannpeðin ráfandi um þessa jörð erum fær um að upplifa tímaleysi, en það er hins vegar tímabundið, það getur gerst með manneskju sem við elskum, fyrir framan 3500 gamla egypska brjóstmynd eða við salatbar um miðja nótt. Kannski er það pínulítið langsótt að halda því fram að brjóstmyndin af Nefertiti og Hagkaup í Skeifunni eigi eitthvað sameiginlegt, en ég held að það sé eitthvað þarna. Annað fyrirbærið er samtímaleg lágmenning og hitt er forsöguleg hámenning, en bæði standa þau fyrir utan tímann, annað í nafni markaðslögmála, en hitt í krafti fegurðar í æðri þjónustu.
Og líklega hefur Akhenaten faraó raunverulega elskað hana Nefertiti sína fyrst hann reyndist svo sannspár í lokaerindi lofsöngsins sem hann samdi.
Og hin mikla drottning sem hann elskar, drottning landanna tveggja,
Neferneferuaten Nefertiti, að eilífu lifandi.