Átakið Hreinsum Ísland hófst í dag á alþjóðlegum degi umhverfisins. Landvernd stendur fyrir átakinu sem er hugsað til þess að vekja athygli á þeim hættum sem fylgja plastmengun í hafi.
Átakinu var hleypt af stokkunum við ströndina við Sjálandsskóla í Garðabæ. Af því tilefni fóru nemendur skólans á sjó á kajökum og drógu stóreflis plastskrímsli af sjónum að landi. Þetta var táknræn athöfn sem sjá má í spilaranum hér að ofan. Nemendur Sjálandsskóla hafa að undanförnu vakið athygli á plastmengun og hreinsa reglulega strandlengjur í nágrenni skólans. Í spilaranum má einnig sjá nemendurna taka til hendinni í fjörunni.
Í tilkynningu Landverndar segir:
„Margir halda því fram að Ísland sé hreinasta land í heimi. Vissulega er loftið hreint og vatnið gott en þrátt fyrir það notar hver Íslendingur að meðaltali 40 kíló af plastumbúðum á ári. Árlega eru 300 milljón tonn af plasti framleidd í heimum (300 milljón fílar!). Aðeins lítill hluti skilar sér til endurvinnslu eða endurnýtingar og er meiri hluti þess annaðhvort grafinn í jörðu og urðaður eða endar í hafinu. Hér áður fyrr var oft sagt „lengi tekur sjórinn við" en nú er jafnvel talið að það verði meira af plasti en fiski í sjónum árið 2050!“