Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, er viðmælandi í nýjum þætti af Hvað í fjandanum á ég að kjósa? Hanna og Ingileif hittust á hinsegin skemmtistaðnum Kiki og ræddu meðal annars hvenær Hanna kom út úr skápnum, en kona hennar er Ragnhildur Sverrisdóttir fjölmiðlakona.

„Síðast þegar ég kom hérna, reyndar nokkrir mánuðir síðan, þá afrekaði ég það að draga tvo ráðherra með mér á dansgólfið,“ segir Hanna en í þættinum segir hún meðal annars frá því að stefna Viðreisnar sé að leyfa þjóðinni að kjósa hvort hún vill ráðast í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Hins vegar sé mikilvægt, ef þjóðin hefur ekki áhuga á ESB, að þjóðin sameinist um aðra lausn en óstöðuga krónu.

Þá ræða þær jafnréttismálin en eitt af því sem fráfarandi ríkisstjórn kom í gegn voru lög um jafnlaunavottun sem var eitt af aðalkosningamálum Viðreisnar fyrir síðustu kosningar.

Hanna Katrín er þriðji síðasti fulltrúi flokkanna sem kemur fram í þættinum fyrir kosningar. Næstir eru Þorvaldur Þorvaldsson frá Alþýðufylkingunni og Þorsteinn Sæmundsson frá Miðflokknum. Lokaþáttur Hvað í fjandanum á ég að kjósa? verður svo sýndur á kosninganótt, eftir að kjörstöðum hefur verið lokað.

Þættirnir fylgja eftir Ingileif Friðriksdóttur í hennar persónulegu vegferð að komast að því hvað hún ætlar að kjósa.