Þórður Víkingur Friðgeirsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, segir það nánast náttúrulögmál hér á landi að stærri framkvæmdir fari fram úr áætlun. Ísland skeri sig úr hvað þetta varðar.

Höfum ekki ná tökum á verkefnastjórnsýslu

„Það sem við höfum verið að auglýsa eftir er stjórnsýsla sem tekur á undirbúningi verkefna, metur áhættu, kostnaðaráætlun og annað í þeim dúr. Og við höfum ekki náð tökum á því sem kallast verkefnastjórnsýsla. Í stuttu máli er ástandið þannig að afleiðingin er að það er nánast náttúrulögmál að stærri opinberar framkvæmdir fara fram úr kostnaðaráætlun,“ segir Þórður Víkingur.

Í könnun sem tækni og verkfræðideild HR gerði kom í ljós að nærri 90% framkvæmda fara fram úr áætlun. Þórður Víkingur vill ekki kveða upp úr með að Braggamálið sé dæmigert verkefni sem fer fram úr áætlun.

„Engu að síður er þetta mál sem dregur fram allt það versta sem getur gerst þegar umgjörðin er ekki í lagi,“ segir Þórður Víkingur. Hann hefur litið yfir skýrsluna. “Það er skelfilegt, séð frá sjónarhóli almennings sem treysti fólki fyrir sínum fjármunum til opinbera framkvæmda, hvernig hefur verið staðið þarna að málum og hvernig hefur verið farið með þessa fjármuni.“


Nánar er rætt við Þórð Víking Friðgeirsson í Speglinum.