Atvinnurekendur vilja stytta vinnuvikuna með því að fella niður kaffitíma. Dregið verði verulega úr yfirvinnu og dagvinnulaun hækkuð í hlutfalli við það. Einnig að dagvinnutímabilið verði frá sex á morgnana til sjö á kvöldin. Starfsgreinasambandið hafnar þessum tillögum.
Sömu kröfurnar
Kröfugerðir VR og Starfsgreinasambandsins er nær samhljóða. Að samið verði til þriggja ára og að í lok samningstímans verði lágmarkslaun komin í 425 þúsund krónur á mánuði. Lágmarkstaxtalaun eru nú um 270 þúsund krónur á mánuði. Í samningaviðræðunum hefur ekki mikið reynt á viðræður um launaliðinn. Hins vegar er himinn og haf milli þessara launakrafna og hugmynda atvinnurekenda sem hafa gefið það út að svigrúmið sé 1,5% til 2 prósent á ári. Það er líka samhljómur milli VR og SGS um styttingu vinnuvikunnar. Bæði félögin vilja að vinnuvikan verði stytt án launaskerðingar. SGS vill að hún verði komin niður í 32 stundir í lok samningstímans. Krafa VR hljóðar upp á að vinnuvikan hjá félagsmönnum verði stytt um 2,5 klukkustundir. Hjá skrifstofufólki verði hún 35 stundir og verslunarfólki 37 stundir.
Hugnast ekki tillögur SA
SA hefur að því er virðist teflt fram tillögum um breytingar á dagvinnutímanum sem sameinar að einhverju leyti launakröfurnar og kröfuna um styttingu vinnuvikunnar. Á formannafundi Starfsgreinasambandsins á föstudaginn var þessum hugmyndum atvinnurekenda nær einróma hafnað. Þær voru kynntar í félögunum í síðustu viku og voru nær allir formennirnir andvígir þeim. 18 af 19 formönnum sátu fundinn.
Þeir sem sitja við samningaborðið eru sammála því að vinnutími á Íslandi sé lengri en gengur og gerist í okkar nágrannalöndum. Krafan um að stytta vinnuvikuna er sett fram í því ljósi.
Kaffitímar felldir niður
Tillaga atvinnurekenda er í mjög stuttu máli sú að dagvinnutímabilið verði lengt, er nú frá 7 til 17 en verði frá 6 að morgni til klukkan sjö að kveldi. Kaffitímar verði felldir niður og vinnutíminn styttur sem því nemur. Sú stytting er 2,5 til 3 tímar á viku.
Það eru ekki ný sannindi að yfirvinna sé stór hluti heildarlauna. Hlutfallið hér á landi er um 20 til 30% af heildarlaunum. Eftir því sem næst verður komist hefur SA reiknað út þetta hlutfall í hverju aðildarfélagi fyrir sig innan Starfsgreinasambandsins. Þær tölur hafa ekki verið gefnar upp. En meðalhlutfallið, 20 til 30% er talsvert hærra en þekkist annars staðar á Norðurlöndum. Þar er það 1- 3% sem þýðir að flestir vinna nánast ekkert fram yfir dagvinnuna og eru komnir snemma heim úr vinnunni.
Dregið úr yfirvinnu
Hugmyndir atvinnurekenda eða tillögur gera ráð fyrir því að til lengri tíma verði dregið verulega úr yfirvinnu og að laun fyrir dagvinnu hækki sem því nemur eða í hlutfalli við það. Tölur hafi ekki verið nefndar um hve mikið dagvinnulaun gætu hækkað. Á samningamáli er talað um að hella á milli. Kostnaði vegna yfirvinnu verði helt yfir á dagvinnuna. Með þessu er litið svo á að komið sé til móts við verkalýðshreyfinguna um hækkun dagvinnulauna og um styttingu vinnuvikunnar.
En það er líka gert ráð fyrir auknum sveigjanleika vinnutímans eða dagvinnutímans. Dagvinnutímabilið verði 13 klukkustundir en ekki 10 eins og nú er. Þetta þýðir að engin yfirvinna byrjar að tikka inn á tímabilinu frá 5 til sjö á kvöldin. Innan verkalýðshreyfingarinnar eru efasemdir um þessa tilhögun. Sumir telja að þetta verði til þess að vinnudagurinn hefjist almennt fyrr en nú eða klukkan sex og þá eru efasemdir um hvernig atvinnurekendur nýti sér lengra dagvinnutímabili. Mögulegt verði að láta fólk ganga vaktir á þessu tímabili og þannig kæmust fyrirtæki hjá því að greiða yfirvinnu sem við núverandi aðstæður hefst klukkan fimm síðdegis. Einnig að möguleiki opnist á það að láta starfsmenn vinna lengri vinnudag á annatíma þó að samanlagður dagvinnutími yfir mánuðinn eða jafnvel lengri tíma fari ekki yfir dagvinnutímamörkin að meðaltali.
Kaffitímar felldir niður
Þó að vinnuvikan sé opinberlega 40 klukkustundir má segja að virkur vinnutími í dagvinnu sé 37 stundir. Hjá Einingu er hann til dæmis 37 stundir og 5 mínútur. Kaffihlé eru 35 mínútur á dag sem eru tekin bæði fyrir hádegi og síðdegis. Samtals nemur kaffitíminn tæpum þremur klukkustundum á viku. Starfsmenn fá greidd laun á meðan þeir setjast niður og fá sér kaffi. Það gildir ekki um hádegismatartíma sem er samkvæmt kjarsamningum 1 klukkustund en mörg félög hafa samið um að hann sé hálf klukkustund sem þýðir að dagvinnu lýkur fyrr. Þá er það heimilt og mörg félög hafa nýtt sé það að selja frá sér kaffitímana. Við það styttist viðveran í vinnunni sem því nemur, svo fremi sem ekki sé um yfirvinnu að ræða.
Tillögur atvinnurekenda um að stytta vinnuvikuna, hækka dagvinnulaunin á kostnað yfirvinnunnar fá ekki mikinn hljómgrunn. Þær krefjast þess að atvinnurekendur skipuleggi sig betur og að launafólk vinni almennt ekki meira en sem nemur dagvinnu. Sú er ekki raunin hér á landi í ýmsum atvinnugreinum. Hins vegar virðist þetta takast annars staðar á Norðurlöndum þar sem viðvarandi yfirvinna þekkist nánast ekki.
Deilan til sáttasemjara?
Formannafundur Starfsgreinasambandsins ákvað að vísa kjaradeilunni ekki til sáttasemjara. Þar á bæ var meirihluti fyrir því að bíða með það fram yfir áramót og endurmeta stöðuna þá. Að vísa deilunni til sáttasemjara þýðir að hann stjórnar ferðinni í viðræðunum. Um leið og deila er komin í hendur hans er hægt að hefja undirbúning eða boða aðgerðir ef enginn árangur er af viðræðunum. Samningafundur SA og VR er á morgun. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR sagði í hádegisfréttum að það komi í ljós á miðvikudaginn hvor VR vísi deilunni til sáttasemjara.