Forsvarsmenn breskra háskóla, listamenn og fræðafólk eru meðal þeirra sem eru uggandi vegna yfirvofandi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Gauti Kristmannsson velti fyrir sér Brexit og menningarlegu frelsi í pistli í Víðsjá á Rás 1.
Gauti Kristmannson skrifar í Víðsjá:
Draugverkir breska heimsveldisins sem hrjáð hafa Stóra-Bretland og náðu hámarki í þjóðaratkvæðagreiðslunni í júní 2016 hafa nú breyst í flog og nú hristist og skelfur líkami þessa samsetta ríkis og ræður ekki við kastið sem minnihluti Íhaldsflokksins breska kom af stað, líkast til í von um að þessi frankensteinska afurð risi upp til fyrri dýrðar. Þetta ríki, eiginlega eitt af fyrstu þjóðríkjunum svokölluðu, er einmitt ekki þjóðríki í hinum venjulega skilningi. Það er samansett úr fjórum þjóðum, Norður-Írum, Skotum, Walesverjum og Englendingum, sumir bæta Lundúnum við sem fimmta hlutanum. Þar er efinn að miklu leyti, aðeins í Englandi og Wales var meirihluti fyrir Brexit, á Norður-Írlandi kusu 56 prósent að vera áfram og í Skotlandi 62 prósent. Alls kusu 52 prósent með Brexit og 48 gegn. Kjörsókn var um 72 prósent þannig að um 37 prósent atkvæðisbærra manna réðu þessu, ekki ólíkt því sem gerðist í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi um stjórnarskrá lýðveldisins og hefur sú kosning nú verið hunsuð á sjöunda ár.
Ein ástæðan fyrir flogunum er sú að eins og á stendur veit ekki nokkur maður hvað gerist á næstu mánuðum. Fari Bretar út án samnings eiga margir eftir að tapa á því beggja vegna Ermarsunds, en þó miklum mun fleiri norðan megin. Sum héraðanna sem sem kusu hvað mest gegn ESB, í Norður-Englandi og Wales, finna áreiðanlega mjög fyrir því þegar Evrópustyrkirnir hverfa og bresk ríkisstjórn í kröggum getur ekki bætt það upp. Sama má segja um bændur í Bretlandi, höggið á þá verður vísast hrikalegt, niðurgreiðslur verða koma úr sama ríkiskassa og vörur þeirra verða tollaðar á Evrópumarkaði. Heilbrigðiskerfið á áreiðanlega eftir að tapa mjög illa þrátt fyrir kosningaáróður Boris Johnsons um að það fengi gommu af peningum við útgöngu. Það tapar einnig erlendu starfsfólki, við Íslendingar ættum kannski að reyna að næla í eitthvað af því meðan tækifæri gefst.
Skjálfti í menningarlífinu
En það eru fleiri hópar sem tapa miklu á útgöngu Breta, hópar sem kannski helst gera tilkall til þess að halda upp orðstír Breta sem heimsveldis nú á dögum en það eru lista- og menntamenn. Breskir háskólar eru, eins og kunnugt er, með þeim eftirsóttustu og öflugustu í heimi. Samkvæmt síðustu könnun Times Higher Education University Ranking voru tveir breskir háskólar í efstu sætum og af 25 bestu töldust þeir vera 5. Engin Evrópuþjóð kemst nálægt þeim á þessum lista og raunar má segja það sama um aðra lista af þessu tagi. Á þessu sviði er „heimsveldið“ svokallaða ennþá raunverulegt og gífurlega mikilvægt fyrir Breta, efnahagslega og menningarlega. Hagsmunir þessa krúnudjásns heyrast varla í umræðunni í Bretlandi og er það sorglegt, því þar starfar og lifir hluti af framtíð Bretlands, enn sem komið er. Margir erlendir vísindamenn og stúdentar hugsa sér hins vegar til hreyfings núna, þeim finnst þeir ekki vera lengur velkomnir og svo er staða þeirra gagnvart stjórnvöldum óljós. Stærsta höggið felst hins vegar í því að verði skólarnir útilokaðir frá Evrópusamstarfi gegnum rannsóknaáætlanir ESB og hreyfanleiki fólks mjög takmarkaður þá eiga þessir fyrrum glæstu skólar ekki eftir að bera sitt barr eins og áður var. Auðvitað verða þeir ekki lagðir niður, en nú verða þeir að fá fé úr sama ríkiskassa og allir hinir sem orðið hafa fyrir tjóni og samstarfsmöguleikar þeirra verða miklu takmarkaðri.
Sama má segja um listamenn á ýmsum sviðum, Evrópusamstarfið hefur veitt þeim gífurlegt svigrúm til að afla styrkja, vinna að samstarfsverkefnum, sýningum, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og fleira og fleira, menn skoði til að mynda kreditlista evrópskra kvikmynda og sjónvarpsþátta. Safnstjórar víða um land fórna nú höndum í örvæntingu því þeir vita að þessi sami hálftómi ríkiskassi Breta á ekki eftir standa undir nema hluta af því sem söfnin fengu í gegnum Evrópusamstarfið. Mestar áhyggjur hafa menn samt af frálsri för fólks, því listamenn hafa notið þess frelsis einna mest af öllum og það hefur skapað gríðarlega margt nýtt og mikinn kraft í listalífi Evrópu allrar. Öfugt við Oscar Wilde verða þeir nú að segja við landamæri Bretlands, I have everything to declare except my genius.
Tónlistarmenn, og ekki síst popptónlistarmenn Breta, eru ekki síður í einhverri allt annarri deild en aðrir í heiminum, að Bandaríkjamönnum meðtöldum. Þeir eru áreiðanlega síst upp á styrki og annan stuðning samstarfsríkja komnir, en þeim er alls ekki sama heldur. Síðastliðið haust skrifaði Bob Geldof opið bréf til Theresu May og var það undirritað af tugum tónlistarfólks, poppara, rokkara og klassískra tónlistarmanna sem áttu sér það áreiðanlega sameiginlegt að vera heimsfræg. Geldof og félagar bentu á að 60 prósent höfundarlauna þeirra renni frá ríkjum ESB, en þau bentu ekki aðeins á tekjutap og missi á möguleikum til ferðalaga og samstarfs, heldur einnig lagalega stöðu með tilliti til höfundaréttar og fleiri atriða. En fyrst og fremst reyndu þau að benda breska forsætisráðherranum á þann menningarlega skaða sem Brexit ætti eftir að valda breskri tónlist og ekki síst ungviðinu sem við á að taka og gæti þurft að sitja miklu fremur heima, enda kölluðu þau Brexit jafngildi menningarlegs fangelsis.
Draugaverkir í raunverulegum útlimum
Vitaskuld heldur lífið áfram þrátt fyrir áföll og vafalaust er einhver svartsýni fólgin í þessum bollaleggingum breskra lista- og menntamanna, það er alveg satt, rétt eins og menn jafna sig einhvern veginn á aflimun, en aldrei alveg því það vantar eitthvað raunverulegt á líkama þeirra. Einu raunverulegu útlimir breska heimsveldisins núorðið eru menning þess, listir og menntastofnanir og það er hætt við að draugverkirnir verði enn verri þegar þeir verða farnir.