Borgarleikhúsið leitar til ungra sviðshöfunda í verkefninu Núna – 2019 þar sem þrjú stutt leikverk eru sett á svið. Verkin eru ólík innbyrðis, segir leikhúsgagnrýnandi Víðsjár en mynda þó sterka heild. „Á Borgarleikhúsið hrós skilið fyrir að standa fyrir jafn metnaðarfullu verkefni sem fært hefur grasrót leikritunar yfir á svið stærsta íslenska atvinnuleikhússins.“
Þorvaldur Sigurbjörn Helgason skrifar:
Síðastliðinn föstudag voru þrjú ný leikverk frumsýnd á litla sviði Borgarleikhússins í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur undir yfirskriftinni Núna! – 2019. Höfundar þess eru þrjú ung og upprennandi leikskáld, þau Hildur Selma Sigbertsdóttir, Þórdís Helgadóttir og Matthías Tryggvi Haraldsson. Titill sýningarinnar vísar beint í sjálfa leiklistina sérstaða hverrar er einmitt sú að hún er sennilega eina listformið sem gerist alltaf í rauntíma. Leiklistin er nefnilega list augnabliksins og á sér því alltaf stað akkúrat núna. Verkefnaval sýningarinnar endurspeglar þetta með því kynna þrjú ný verk sem skrifuð eru beint inn í samtímann eftir leikskáld sem eru öll að stíga sín fyrstu skref í atvinnuleikhúsi. Núna! – 2019 á sér fordæmi í samnefndri sýningu sem var sett upp í Borgarleikhúsinu árið 2013 og innihélt verk eftir Tyrfing Tyrfingsson, Kristínu Eiríksdóttur og Sölku Guðmundsdóttur, höfunda sem öll hafa vakið mikla athygli fyrir skrif sín síðan þá. Án þess að setja óþarfa pressu á hina nýbökuðu höfunda þá gefur þetta ákveðin fyrirheit um að forvitnilegt verði að fylgjast með þeim Hildi, Þórdísi og Matthíasi á komandi árum.
En að verkunum sjálfum, sýningin hófst á verki Hildar Selmu, Sumó. Verkið fjallar um ungt par, þau Axel og Rannveigu (leikin af Haraldi Ara Stefánssyni og Þuríði Blævi Jóhannsdóttur) sem hafa leigt sér sumarbústað yfir helgi í því skyni að taka sér frí frá hversdeginum og hafa það kósý. Þau ákveða að kíkja aðeins í pottinn og eru stödd í miðjum ástaratlotum þegar ókunnug kona kemur aðvífandi í mikilli geðshræringu og truflar rómantíkina. Konan, sem heitir Edda og er leikin af Völu Kristínu Eiríksdóttur, segist vera stödd í bústaðnum við hliðina en kærasti hennar Einar (leikinn af Hannesi Óla Ágústssyni) hafi keyrt í burtu í fússi og skilið hana eina eftir. Edda hressist fljótt við þegar hún fær sér smá af rauðvíni parsins og hefur innan skamms gert sig heimakomna þeim til mismikillar ánægju.
Um er að ræða algengt þema í bæði leikritum og bíómyndum, hjón sem eru að hafa það náðugt á heimili sínu eða í sumarbústað eru trufluð af ókunnugri manneskju sem er ekki öll þar sem hún er séð, manneskjan fer brátt að vefja hjónunum um fingur sér og hefur innan skamms náð stjórn á atburðarrásinni. Af nýlegum verkum sem vinna með þetta þema má nefna kvikmyndina Mother! frá árinu 2017 eftir Darren Aronofsky. Við fyrstu sýn gæti maður því haldið að Sumó væri að feta kunnuglegar slóðir en þó verður fljótt ljóst að svo er ekki, því rétt eins og Mother! tekur atburðarrásin heldur betur óvænta stefnu einmitt þegar maður er farinn að venjast henni. Senur byrja að endurtakast eins og um sé að ræða déjà vu og setningar sem áður voru sagðar af einni persónu eru endurteknar af annarri sem var ekki á staðnum. Sá eini af karakterunum sem virðist taka eftir þessu er Axel sem fyrir vikið verður sífellt ringlaðri og fer á endanum að efast um sína eigin geðsmuni. Þessi afbygging á söguheimi og söguþræði verksins er einstaklega vel heppnuð og gerir það að verkum að áhorfandinn fer að efast um allt það sem hann hefur orðið vitni að þar á undan á sama tíma og persónur leikritsins berjast við að halda í sinn eigin veruleika innan þess.
Annað leikrit kvöldsins var verkið Þensla eftir Þórdísi Helgadóttur. Agnes og Egill (leikin af Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur og Hannesi Óla) eru hjón á miðjum aldri sem standa frammi fyrir nokkuð sérkennilegum erfiðleikum innan hjónabandsins. Agnes hefur nefnilega fyllt stofuna á heimili þeirra af hitalömpum og rakatækjum til að búa til sem best skilyrði fyrir tilvonandi fjölskyldumeðlimi, hóp af ferskvatnskrókódílum sem dorma í hitakassa á miðju stofugólfinu og bíða þess að klekjast út úr eggjum sínum. Kvöldið sem krókódílarnir eiga að klekjast út býður Egill ungu tónlistarmönnunum Marínu og Daníel heim (leiknum af Ebbu Katrínu Finnsdóttur og Haraldi Ara) en þau eru að fagna frumsýningu nýs tónlistarmyndbands sem Egill leikstýrði fyrir þau. Tónlistarmennirnir verða vitni að hjónabandserjum Agnesar og Egils en Agnes er þjökuð af áralöngu samviskubiti vegna dauða vinkonu sinnar sem lést af slysförum í Bangkok aðeins 19 ára gömul þar sem hún var á ferðalagi ásamt þeim Agli. Slysið virðist hafa haft mikil áhrif á líf þeirra hjóna sem hafa þó unnið úr því á gjörólíkan hátt. Agnes kennir sjálfri sér um dauða vinkonu sinnar og bregst við með því að taka persónulega ábyrgð á öllu því sem henni finnst vera að samfélaginu í dag. Hún þjáist af svokölluðu vestrænu samviskubiti, skammast sín fyrir efnishyggju þeirra hjóna, hefur stöðugar áhyggjur af yfirvofandi loftslagsvanda og fær áfall ef hún gleymir að taka fjölnota poka með sér í matvörubúðina. Egill reynir aftur á móti að flýja fortíðina og vandamálin með því að sökkva sér í vinnu auk þess sem honum finnst hann eiga skilið að njóta ávaxtar erfiðis síns og lifa góðu lífi.
Undirliggjandi spurning verksins er hvert sé gildi manneskjunnar þegar hún stendur frammi fyrir bæði persónulegum og samfélagslegum vandamálum af stórum toga. Agnes hreinlega skammast sín fyrir eigin mennsku og lítur á menn sem rót alls þess sem er að heiminum í dag. Egill, ásamt listamönnunum Daníel og Marínu, vill hinsvegar upphefja mennskuna og saman skála þau fyrir því hvað þau séu þakklát fyrir að vera manneskjur. Verkið er uppfullt af áhugaverðum pælingum um stöðu mannsins í breyttum heimi en þó getur reynst erfitt að koma jafn umfangsmiklum hugmyndum fyrir í 40 mínútna leikriti og líður uppbygging verksins og dramatúrgía fyrir það. Þá er endir leikritsins nokkuð óskýr og virkaði sem heldur fljótfær lausn á annars áhugaverðu efni.
Þriðja og síðasta verk kvöldsins er eftir Matthías Tryggva og ber titilinn Stóri Björn og kakkalakkarnir. Verkið var upphaflega sett upp á Ungleik árið 2016, leiklistarhátíð sem sýnir árlega verk ungra leikskálda á aldrinum 16-25 ára. Verkið hefur síðan verið þróað áfram og er flutt í endurbættri útgáfu á Núna! – 2019. Það sker sig úr frá fyrri tveimur verkunum því þó að þau nýti sér bæði ákveðna eiginleika absúrdleikhússins þá er Stóri Björn eina verk sýningarinnar sem segir fullkomlega skilið við hversdagsleikann og allt sem talist getur raunsæi. Aðalpersóna þess er Stóri Björn (leikinn af Hannesi Óla) afvegaleiddur ungur maður sem hefur sóað tíma sínum í óraveröld neyslu og kláms. Leikritið gerist að öllu leiti í einhvers konar fantasíuheimi Stóra Bjarnar og brátt taka aðrar persónur að birtast á sviðinu sem eru að öllum líkindum holdgervingar hugaróra hans. Þetta eru annars vegar tvær konur (leiknar af Ebbu Katrínu og Völu Kristínu) og hins vegar tveir kakkalakkar (leiknir af Haraldi Ara og Þuríði Blævi). Texti verksins flæðir áfram í orðastraumi sem lýst hefur verið af höfundi sem eins konar „textavél“ og nær á sama tíma að vera bæði gróteskur og ljóðrænn.
Í fyrstu innkomu sinni talar Stóri Björn um gamla djöfla æsku sinnar og deilir með áhorfendum draumi einum sem byrjar eins og kynlífsfantasía beint upp úr klámmynd en umbreytist svo yfir í martraðakenndan hrylling fullan af líkamsvessum og kakkalökkum. Í kringum þetta leiti koma svo hinir eiginlegu kakkalakkar skríðandi undan sviðinu og byrja að ásækja hann. Kakkalakkarnir eru holdgerving alls hins myrka í fantasíuheimi Stóra Bjarnar, engjast og hoppa um sviðið klæddir kjólfötum með gervilimi límda við ennið eins og einhyrningshorn. Þeir minna svolítið á Bokka úr Draumi á Jónsmessunótt, eru forvitnir og prakkaralegir og láta dæluna ganga um hluti beint upp úr neysluheimi kapítalismans og klámveröld internetsins. Stóri Björn gerir veika tilraun til að verjast ágangi kakkalakkanna sem leggja undir sig heimili hans og gera plön um að innrétta hana eftir sínu eigin höfði eftir að þeir eru búnir að fara í „kakkalakka Ikea“. Hann fær þó hjálp þegar konurnar birtast eins og bjargvættir og ráðast til atlögu gegn kakkalökkunum. Konurnar eru birtingarmynd alls hins fagra og upphafna í fantasíuheimi Stóra Bjarnar og orða það fullkomlega sjálfar þegar þær tilkynna komu sína og segjast vera andstæða kakkalakkanna. Ein þeirra er klædd í gylltan spandexgalla með ökklasítt hár svo minnir á Valkyrju eða ofurhetju á meðan hin er klædd í þröngan og efnislítinn leðurgalla á háum hælum svo minnir á eins konar BDSM dominatrix. Báðar eru þær holdgerving ákveðinnar karlkyns fantasíu um konur fengin beint upp úr klámi og poppkúltúr. Konurnar og kakkalakkarnir heyja baráttu sem endar með sigri kvennanna og sem lokagjörð frelsa þær Stóra Björn úr viðjum óra sinna og senda hann svífandi upp í ljósið vopnaðan heillagripum á meðan þær kenna honum lífsreglurnar.
Stóri Björn og kakkalakkarnir er kraftmikil flugeldasýning sem nær að fjalla um ýmis mál sem hafa verið mikið í umræðunni undanfarin ár svo sem karlmennsku, neysluhyggju og klám, á hátt sem fær mann bæði til að engjast um af hlátri og vilja líta undan af viðbjóði. Verkið á ef til vill betur við núna í kjölfar metoo byltingarinnar sem skók leikhúsið og samfélagið allt í hittifyrra heldur en þegar það var upphaflega sett upp árið 2016.
Þó að verkin í Núna – 2019 séu ólík innbyrðis hefur leikstjóra og dramatúrgum vel tekist að draga fram þá hugmyndafræðilegu þræði sem liggja á milli leikritanna þriggja og tengja þau saman í marglaga heild, eins konar dramatíska lagköku, ef svo má að orði komast. Leikstjórinn Kristín Jóhannesdóttir hefur augljóslega handleikið verkin af mikilli næmni og ákvörðunin um að ráða reyndan og þroskaðan leikstjóra á móti hinum ungu höfundum hefur því greinilega reynst vel. Annað sem verkin þrjú deila á milli sín er sviðsmyndin sem helst að mestu leiti sú sama í gegnum sýninguna, að nokkrum hlutum undanskildum. Meginpartur hennar samanstendur af sexhyrndu snúningssviði á tveimur hæðum skreyttu með flísum sem minna á diskókúlu og dúki sem minnir á steiningu. Þessi útfærsla er án efa gerð með sérstaka lögun litla sviðs Borgarleikhússins í huga sem er hannað þannig að sviðið sjálft er í miðjunni og sætum áhorfenda raðað hringinn í kring. Snúningssviðið hefur eflaust verið góð hugmynd á blaði en í framkvæmd var það helst til kauðskt, hökti og virkaði ekki alltaf sem skyldi.
Þetta er þó smáatriði í annars sterkri heild og á Borgarleikhúsið hrós skilið fyrir að standa fyrir jafn metnaðarfullu verkefni sem fært hefur grasrót leikritunar yfir á svið stærsta íslenska atvinnuleikhússins. Mættu hin leikhúsin taka sér þetta til fyrirmyndar.