Ragnhildur Magnúsdóttir, kvensjúkdómalæknir segir það vaxandi vandamál hér á landi að fólk bíði með barneignir. Hún tekur sem dæmi að samkvæmt tölfræðinni þurfi kona sem vill eignast þrjú börn að hefja barneignir þegar hún er um 23 ára. Frjósemi minnki eftir því sem fólk verður eldra, bæði hjá konum og körlum, og það virðist koma fólki í opna skjöldu. Rætt var við hana í Kastljósi í kvöld.

„Við höfum yfirleitt staðið okkur vel hér á Íslandi í barneignum, samanborið við aðrar þjóðir en þetta er að breytast og barneignum að fækka. Aldur frumbyrja er að hækka og fleiri og fleiri konur draga það að eiga börn og draga það jafnvel það lengi að þegar þær ætla að stofna fjölskyldu þá er það jafnvel orðið of seint.“

Konur á Íslandi eignast færri börn en áður og er sú þróun í takti við nágrannaþjóðirnar. Konur fresta barneignum fyrir nám eða starf og svo vilja ekki allar konur eignast börn. „Nú er svo komið að það fæðist að meðaltali 1,7 börn fæðast á konu á Íslandi, sem áður var yfir tveimur og þarf að vera yfir 2,1 til þess að þjóðinni fari ekki að fækka. Þetta er áhyggjuefni þar sem að samfélagið byggir á öllum aldurshópum. Það myndi raskast mjög mikið jafnvægið ef að okkur fer að fækka og þjóðin samanstendur fyrst og fremst af eldra fólki.“

Tæknifrjóvgun sé ekki töfralausn

Ragnhildur segir að þeir sem eigi í vandræðum leiti í frjósemismeðferðir. „Og þá kemur það oftar en ekki fólki í opna skjöldu að það sé kannski búið að missa af lestinni. Að það komi ekki til með að geta eignast barn með eigin kynfrumum.“

Ragnhildur segir að fólk geri sér ekki grein fyrir því að tæknifrjóvgun geri ekkert kraftaverk ef fólk ætli sér að nota eigin kynfrumur. „Því að við þurfum að vinna með þessar frumur sem eru orðnar skemmdar og skemmast með aldrinum.“

Ef konur ætli sér að frysta egg þá þurfi þær að gera það þegar þær eru ungar og frysta nógu mörg til að raunhæfur möguleiki sé á þungun. Engin trygging sé fyrir því að það takist. 

Frjósemi minnkar hratt eftir 35 ára aldur

Ragnhildur segir að þeir sem vilji stofna fjölskyldu og eignast fleiri en eitt barn þurfi að byrja að huga að því fyrr en seinna, þótt auðvitað séu dæmi þess að konur eignist börn eftir 35 ára aldur eða fertugt. „Ef þú ætlar að eignast þrjú börn og tölfræðin er tekin og reiknuð út, þá segir hún að ef þú ætlar að verða 90 prósent viss um það, þá þarftu að byrja ca. 23 ára. Þetta er eitthvað sem ég held að konur geri sér ekki grein fyrir.“

Ragnhildur segir að frjósemi karla minnki einnig með aldrinum. „Það kemur aðeins seinna inn hjá þeim heldur en hjá konunum. Upp úr fertugu, 45, fara að sjást breytingar út af aldri grunnfrumnanna sem framleiða sáðfrumurnar og þá eykst tíðni fósturláta hjá eldri karlmönnum.“

Hjá konum haldist frjósemin nokkuð góð fram undir 35 ára aldur. „Eftir það þá fer hún að minnka og fósturlátum að fjölga að sama skapi, sem endurspeglar svolítið gæði eggjanna. Þetta fer síðan hratt niður á við að fertugu og upp úr því.“

Ragnhildur segir að litlar líkur séu á því að 44 til 45 ára kona verði barnshafandi. „Það er kannski 1% líkur á því að það takist og þrátt fyrir að þær leiti í tæknifrjóvgun að þá gerir hún ekkert kraftaverk vegna þess að eggin eru þau sömu. Þetta getur komið konum og pörum í opna skjöldu.“

Ekki næg fræðsla

Ragnhildur segir að fólk sé ekki nógu upplýst um eðlilegan frjósemisaldur og gerir ekki ráð fyrir þessu þegar það fer að huga að að barneignum. Hún telur að þessi fræðsla mætti vera með í kynfræðslu, um leið og talað sé um getnaðarvarnir og kynsjúkdóma. „Að sama skapi þarf að upplýsa konur sérsetaklega um þeirra frjósemisaldur, þannig að þær geti skipulagt sig ef þær eru á leiðinni í langt nám, eða ef þær hafa hugsað sér að eignast börn að þær viti hvenær það er best.“

Konur hafi fengið misvísandi upplýsingar í glansmiðlum og tímaritum um konur á fimmtugs- og sextugsaldri sem eru að eignast börn. „En þess er aldrei getið að þetta eru gjafaegg eða að þær hafi fengið einhverja hjálp og þetta litar náttúrlega vitund kvenna.“

Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.