Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélagsins, segir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu eyða ákveðinni óvissu um Landsrétt en skilja Íslendinga eftir í enn annarri óvissu.
„Þessi dómur leysir úr ákveðinni réttaróvissu sem hefur verið. Hann leiðir hins vegar til enn frekari óvissu um hvað verður,“ segir Berglind sem var gestur Samfélagsins á Rás 1 í dag.
„Ég lít þannig á að stjórnvöld eigi næsta leik og ég sakna þess dálítið að hafa ekki heyrt í stjórnvöldum um það hvernig þau sjá þetta fyrir sér. Það hefur náttúrlega legið fyrir lengi að dóms væri að vænta og að niðurstaðan yrði á annan hvorn veginn,“ segir Berglind.
„Við þurfum að fá einhverja niðurstöðu í þetta mál,“ segir hún. „Allir þeir sem þurfa sækja rétt sinn til dómstóla eiga rétt á því að það sé alveg ljóst að sá dómur sé löglega skipaður og að fólk eigi rétt á réttlátri málsmeðferð. Þetta er ein grundvallarreglan í okkar þjóðfélagi. Á þessu hvílir réttarríkið.“
„Nú er það þannig samkvæmt íslenskum lögum að dómarar verða ekkert settir af nema með dómi. Þannig að þeir eru þarna.“
Spurð hvort það megi ekki búast við því að farið verði fram á endurupptöku dóma sem fallið hafa í Landsrétti segir Berglind það vel geta gerst. „Ég sé fyrir mér að það verði skipaður einhverskonar vinnuhópur til þess að skoða þetta mál frá öllum hliðum. Menn geta óskað endurupptöku og hugsanlega krafist miskabóta, það fer bara eftir því hvernig mál eru vaxin.“
Dómar Landsréttar verða ekki sjálfkrafa ógildir við dóm Mannréttindadómstólsins, enda er það ekki áfrýjunardómstóll. Sérstök endurupptökunefnd metur það hvort heimilt sé að taka mál upp eða ekki. „Þessi dómur skilur okkur eftir í ákveðnu tómarúmi með dóma sem hafa verið dæmir af dómurum sem voru ekki löglega skipaðir,“ segir Berglind. „Þá þarf að taka á því með einhverjum hætti.“
„Ég sé fyrir mér að þeir dómar sem hafa verið dæmdir í Landsrétti og bíða meðferðar Hæstaréttar, þeir hljóta að vera ógiltir,“ segir Berglind.