Dómsmálaráðherra harmar erfiða reynslu sem fatlaður maður varð fyrir þegar hann var vistaður í fangelsinu að Bitru á níunda áratugnum. Stjórnvöld ætla að skoða hvort ástæða sé til að rannsaka fleiri vistheimili fyrir fatlaða.

Á níunda áratugnum var rekið fangelsi að Bitru í Flóahreppi. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun var það starfrækt frá 1981 til 1989. Samhliða því var fólk með ýmiss konar fötlun vistað að Bitru. Þeirra á meðal var Ólafur Hafsteinn Einarsson sem fréttastofa ræddi við í mars. Í viðtalinu lýsti hann meðal annars harðræði, og því hvernig hann var læstur inni án þess þó að vera fangi.

„Mér fannst það bara hræðilegt. Ég var enginn afbrotamaður.“

Varðstu fyrir hótunum eða ofbeldi?

„Já. Miklu,“ sagði Ólafur þegar fréttastofa ræddi við hann í mars.

Í skýrslu um slæman aðbúnað, illa meðferð og ofbeldi á Kópavogshælinu sem kom út í febrúar í fyrra hvetur vistheimilanefnd stjórnvöld til að skoða vistun fatlaðs fólks í fortíðinni, bæði barna og fullorðinna, annars staðar en á Kópavogshælinu. Eftir að skýrslan kom út fengu þeir sem voru vistaðir sem börn á Kópavogshæli bætur vegna þeirrar dvalar, líkt og margir þeirra sem vistaðir voru sem börn á öðrum stöðum hafa fengið, til dæmis þeir sem voru í Breiðavík. Samkvæmt lögum um sanngirnisbætur geta þó aðeins þeir sem voru vistaðir sem börn átt rétt á bótum.

Óréttmæt nauðung og frelsissvipting

Eftir fjölmiðlaumfjöllun um mál Ólafs fékk hann fund með dómsmálaráðherra, og í kjölfarið fór hann formlega fram á að ráðuneytið hæfi opinbera rannsókn á starfsemi Bitru og öðrum heimilum fyrir fatlaða. 

Í bréfi sínu til ráðherra sagði Ólafur meðal annars að brýnt væri að upplýst yrði með opinberri rannsókn hvað raunverulega átti sér stað á Bitru og á öðrum heimilum.

„Frásögn mín og margra okkar benda ekki aðeins til óréttmætrar nauðungar og frelsissviptingar, heldur einnig illrar meðferðar og brota,“ segir Ólafur meðal annars í bréfinu. Málið snúist ekki um bætur, „heldur að við sem erum enn á lífi, og þau okkar sem eru nú látin, fáum uppreist æru okkar og getum með staðfestri vissu sagt að viðlíka brot á réttindum fólks og kerfislægar ofbeldisaðstæður heyri sögunni til.“    

Jafnframt óskaði Ólafur eftir því að fylgt yrði eftir tillögum vistheimilanefndar um breytta lagaframkvæmd til að tryggja réttarstöðu annarra í sömu stöðu.

Óskar Ólafi alls hins besta

Ráðuneytið svaraði Ólafi í síðustu viku. Þar segir að vistheimilanefnd hafi ekki fengið önnur verkefni frá því að nefndinni var falið að kanna vistun barna á Kópavogshælinu. Meðal skilyrða fyrir sanngirnisbótum sé að fyrir liggi skýrsla vistheimilanefndar um viðkomandi heimili. Auk þess falli hvorki Bitra né önnur heimili eða stofnanir undir lög um sanngirnisbætur.

Hvað varði rannsókn á öðrum stofnunum segir í svari ráðuneytisins að unnið sé að skýrslu um framkvæmd laganna og verkefnisins. Þegar sú skýrsla liggur fyrir muni ráðuneytið taka þessi mál til frekari skoðunar, þar með talið hvort og þá hvernig verði staðið að frekari rannsóknum og bótauppgjöri.

Að lokum segir í bréfinu: „Dómsmálaráðherra harmar þá erfiðu reynslu sem þér lýstuð í erindi yðar og á fundi með ráðherra og óskar yður alls hins besta.“