Leiklistargagnrýnandi Víðsjár var hrifin að sýningunni Íslendingasögur í Hörpu þann 1. des og líka af Leitinni af tilgangi lífsins sem að leikhópurinn 16 elskendur býður upp á í yfirgefnu húsnæði Læknavaktarinnar.


María Kristjánsdóttir skrifar:

Fyrsta desember á hundrað ára afmæli fullveldisins frumsýndi leikhópurinn 16 elskendur gjörninginn „Tilgangur lífsins“. Og í Hörpu var fluttur sama dag annar gjörningur  í tilefni af afmælinu, „Íslendingasögur“. Þar sem gjörningurinn í Hörpu var aðeins framinn í þetta eina sinni valdi ég að fara þangað fyrsta des en til elskandanna fimm dögum síðar.  

Það er ekki beinlínis í mínum verkahring að fjalla um fullveldishátíðina og henni hafa verið gerð góð skil hér í Ríkisútvarpinu. Samt sem áður get ég ekki stillt mig um að skjóta nokkrum orðum inn um hana einkum um sumt sem ekki hefur verið áður minnst á.

Fyrst skal nefnt að ég heyrði í fyrsta sinn Guðna forseta flytja ágæta ræðu, hann stríddi meira segja dönsku drottningunni. Þá var gleðilegt hvað myndlistin fékk stóran þátt í þeirri djörfu og róttæku fléttu sem listrænn stjórnandi hátíðarinnar Arnbjörg María Danielsen og hljómsveitarstjórinn Bjarni Frímann Bjarnason fléttuðu úr texta, leik, söng og  tónlist. Ljósagjörningur danska videólistamannsins Lene Juhl Nielsen og ljósahönnuðarins Kaspers Wolf Stouenborg og hugmyndaríkir búningar Ingibjargar Jöru Sigurðardóttur, víkkuðu ekki aðeins út sjálfan salinn og það sem var sagt og leikið á sviðinu heldur urðu oftar en ekki sjálfstæðar athugasemdir um lífið í þessu landi.

En það sem kom mest á óvart  í allri þessari symfóníu fyrir auga og eyra var hve hlutur almennings en ekki höfðingja og hlutur kvenna en ekki karla var þar gerður stór. Þannig var köllum lítið hampað nema þá helst þeim mæta byltingamanni Jörundi hundadagakonungi, Degi Sigurðarsyni auðvitað líka og syni alþýðunnar, Bubba, en lágstemmd útsetningin á lagi hans Stál og hnífur sungið af Kristínu Þóru Haraldsdóttur var einn af hápunktum sýningarinnar. Hún flutti einnig glæsilega brot úr kvæðaflokki Lindu Vilhjálmsdóttur „Smáa letrinu“ og Gerði Kristnýju og Guðrúnu Evu Mínervudóttur var einnig lyft fallega fram, en flutningur á nýrri útgáfu verksins Ad Genua eftir Önnu Þorvaldsdóttur við texta Guðrúnar Evu batt enda á sýninguna. Þá var frumflutt tónverk eftir Báru Gísladóttur.

Kannski var þessi flaumur af  eldrauðum vinnuvettlingum, endalausum þorskflökum,  frásögnum, þjóðsögum, ljóðum, hljóðverkum, þjóðlögum, klassískri tónlist, poppi og rappi í heild áminning um að fullveldi fengum við ekki fyrir hundrað árum við erum  enn að reyna að skapa það, enn erum við ekki laus undan Dönum. Á það vorum við óþyrmilega innt með mögnuðum trommudansi Grænlendings og síðast en ekki síst þegar  andlit hinna þúsund kvenna sem krefjast að nýja stórnarskráin verði lögfest var varpað yfir allan salinn.

Elskendur á vakt

Leikflokkurinn 16 elskendur á líka afmæli á þessu ári, hann er ekki hundrað ára heldur tíu ára.  Að venju buðu þau okkur að vera þáttakendur í leik sem gæti kallast „Leitin að tilgangi lífsins“  og fer fram á stað við Smáratorg þarsem ég hafði aldrei stigið inn fæti , gömlu læknavaktinni.

En ég kannaðist samt við mig. Þær eru allar keimlíkar  stöðvarnar þær. Í glerbúrinu í anddyrinu sitja þrír vinalegir  einstaklingar sem maður meldar sig hjá , svo sest maður og bíður með hinum 36 sem eru að fara taka þátt í heilsufarsrannsókn eða leita sér lækninga. Bíður. Bíður. Þá gerist það óvænta , upp rísa þau í búrinu og bjóða okkur velkomin með söng. Þetta mættu  þau í Árbænum mínum herma eftir! Glöð streymum við því inn á ólíka ganga völundarhússins þegar nöfn okkar eru kölluð upp, hengjum um hálsinn lítið kver sem á stendur reyndar „Kver er ég“ og kver auðvitað með kái. Níu erum við í hverjum hóp, en ekki alltaf saman, leitin því ferðalag sem  byrjar auðvitað með einstaklingsmeðferð en síðan ýmiss konar hópmeðferð sem hér verður ekki lýst í smáatriðum því hún þarf að koma á óvart.

Það skal hins vegar staðhæft að aldrei fyrr  hefur 16 elskendum tekist betur það ætlunar verk sitt að gera áhorfandann en ekki leikarann að miðpunkti sýningar; aldrei fyrr hafa þau verið jafn fagleg, jafn mjúk en þó fjarlæg í nálgun sinni við okkur sem þau vilja að velti fyrir sér tilgangi lífsins, þessa skamma lífs sem okkur er öllum gefið.  Rænd hlutverki áhorfandans og gagnrýnandans, orðin að þátttakanda sem streytist við að föndra, halda lagi í söng, draga á eftir sér lappirnar get ég aðeins sagt að hafi ég fundið tilgang lífsins í þessari för þá er hann sá að paufast áfram í för með öðru fólki í myrkri og ljósi , treysta því og gleðjast.

Það er því hægt að mæla með því að allir sem eru að kikna undir æði verslunarjólanna , leiti sér kærkominnar hugarróar hjá 16 elskendum við Smáratorg.  

Og til hamingju með tíu ára afmælið 16 elskendur. Gott að þið skuluð vera til í flóru leikhússins. Gleðileg jól!