Lítið Disney-þorp sem rís nú í Tyrklandi hefur vakið mikla athygli, aðallega vegna byggingarstílsins. Flestir kaupendur eru hættir við vegna efnahagsástandsins og eftir stendur draugabær, með eintómum köstulum.

Í þorpinu eru tæplega 800 kastalar en þeir standa allir tómir og flestir ókláráðir. Hugmyndin kviknaði fyrir nokkrum árum þegar mikil fasteignabóla var í Tyrklandi en hún er nú sprungin. Frumkvöðlarnir sem standa að baki þessu Disney-ævintýri reyndu að höfða sérstaklega til Araba, sem sækja í svalara loftslag en við Persaflóann. Framkvæmdir hafa verið stöðvaðar fram á vor vegna efnahagsástandsins. Það er því óvíst hvort ævintýrið fái farsælan endi og hvort það sé hægt að leita víðar að kaupendum sem gætu hugsað sér að búa í kastala, innan um eintóma kastala, sem eru á hálfgerðri brunaútsölu núna og kosta ekki nema um fimmtíu milljónir íslenskra króna. 

New York Times fjallar um þorpið á vef sínum en bæði franska og norska ríkissjónvarpið hafa nýlega heimsótt þorpið og kynnt sér aðstæður. Það eru Yerdelen-bræðurnir sem eiga veg og vanda að kastalabyggingunum sem eru mjög veglegar. Þeir eru flestir þriggja hæða og gert er ráð fyrir heitum potti og öðrum þægindum á hverri hæð, í sumum þeirra er gert ráð fyrir sundlaug. 

Skammt frá kastalahverfinu er þorpið Mudurnu, miðja vegu milli Istanbúl og Ankara, en þar eru fæstir spenntir fyrir komu fjölda forríkra Araba en í þorpinu og nágrenni er mikið gert út á túrisma sem tengist heitum böðum því töluverður jarðhiti er þar í nágrenninu. Bræðurnir fara fyrir Sarot Group, sem keypti mikið land á þessu svæði fyrir nokkrum árum og reisti kofabyggð í anda Harry Potter og síðan átti að færa sig yfir í Disney en það virðist ekki ætla að ganga eftir. Þó er aldrei að vita ef tyrkneskt efnahagslíf kemst aftur á rétt ról.