Anna Þorvaldsdóttir tónskáld notar engin hljóðfæri þegar hún semur tónlist. Hún teiknar skissur af tónverkunum og handskrifar nóturnar. Anna hefur gert samning við Deutsche Grammaphon, en sjaldgæft er að ný tónlist sé gefin út undir því merki.
Anna fékk Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verkið Dreymi fyrir tveimur árum og var þá þriðja konan sem hafði hlotið þau verðlaun. Dreymi var flutt á tónlistarhátíðinni Ultima í Ósló í fyrradag og í tilefni af því var birt tilkynning á Facebook-síðu Universal Music Classics að plata með verkum Önnu kæmi út undir merki Deutsche Grammophon í nóvember.
Deutsche Grammophon hefur ekki gefið mikið út af nýrri tónlist. Á plötunni verður samsafn af verkum, allt frá einleiksverkum upp í hljómsveitarverk, valin verk frá síðastliðnum árum og eru þau öll með íslenskum flytjendum. Eitt af þeim er Aeriality sem hún skrifaði fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og var frumflutt árið 2011.
Ný ópera eftir Önnu verður frumflutt í Þýskalandi á næsta ári og einnig flutt á Ultima hátíðinni í Noregi í september og á Íslandi árið 2016.