Á fundi atvinnuveganefndar Alþingis í morgun lagði meirihlutinn til að átta virkjanakostir fari úr biðflokki í nýtingarflokk, þar með talið Hvammsvirkjun sem lagt var af stað með. Þingmenn stjórnarandstöðu gagnrýndu stjórnarliða harðlega fyrir að fara fram með þessum hætti.
Þingmenn stjórnarandstöðu fóru fram á að forseti Alþingis skærist í leikinn vegna þeirrar fyrirætlunar meirihluta atvinnuveganefndar að ætla að færa átta virkjanakosti úr bið í nýtingu, því hún muni hafa áhrif á öll störf þings næstu daga. Þeir segja stríðshanska kastað og friðinn um rammaáætlun rofinn. Formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar vísa því á bug. Þingflokksformannafundur verður haldinn vegna málsins.
Þingmenn stjórnarandstöðu brugðust hart við þessum fréttum, rammaáætlun sé sniðgengin og friðurinn sé slitinn í sundur. Breytingartillagan ekki verið á dagskrá fundarins enda umfjöllun um rammaáætlun í miðjum klíðum.Við skulum fyrst heyra í Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og síðan Árna Páli Árnasyni.
„Mér finnst þetta vera svo ruddaleg vinnubrögð að ég treysti því að forseti grípi hér inn í,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var einnig ósáttur: „Það er algjörlega ótrúlegt að sjá þá ganga fram með þessum fruntaskap. Mér finnst þess vegna full ástæða til að hæstvirtur forseti grípi fram fyrir hendurnar á þessari valdníðslu sem hér á sér stað.“
„Staðreyndin er sú að ef ætlunin er að fara með þetta mál með þessum hætti, virðulegi forseti, er verið að gera svo róttækar breytingar á málinu að það er ekki hægt að líta á það sem einfaldar breytingartillögur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, átaldi stjórnarliða fyrir það hvernig þeir héldu á málinu. „Þetta er auðvitað stríðshanski. Þetta endurspeglar alveg ótrúlegt virðingarleysi fyrir þessu tæki sem við þó höfum og þurfum að bera virðingu fyrir sem er rammaáætlun.“
„Þarna er verið að rjúfa friðinn sem að mun hafa áhrif á mjög margt annað hér inni á Alþingi,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Ráðherrar og stjórnarliðar brugðust hart við þessari gagnrýninni og vísuðu henni alfarið á bug. Bjarni Beneditksson fjármálaráðherra var einn þeirra: „Það er hins vegar athyglisvert að sjá svona stór orð falla af vörum stjórnarandstæðinga nú sem studdu síðustu ríkisstjórn og hafa greinilega ekki lesið bók háttvirts þingmanns Össurar Skarphéðinssonar sem gerir því góð skil í bókinni hvernig þetta mál var andlag hrossakaupa.“
„Það er margt hægt að segja um þetta mál en það er ekki hægt að saka okkur um að vera að rjúfa einhverja sátt í þessu máli,“ sagði Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar. Hann sagði að sáttin hefði verið rofin á síðasta kjörtímabili þegar ekki hefði verið farið að faglegum tillögum verkefnisstjórnar.