Davíð Oddsson segir að eftir að hafa lesið Al Thani dóminn finnist sér líklegra en hitt að pottur hafi verið brotinn í kaupunum á Búnaðarbankanum. Umboðsmaður Alþingis hefur undir höndum nýjar upplýsingar um að þýski bankinn sem átti að vera kjölfestufjárfestir í bankanum hafi hugsanlega ekki verið raunverulegur fjárfestir. Davíð vill að málið verði rannsakað.
„Ég er ekki viss um að einhver nefnd á vegum Alþingis hafi nægilega sterka stöðu til að gera það. Mér finnst að frá upphafi eigi lögreglan að vera með í þessu. Þó að menn haldi kannski að mál kunni að vera fyrnd þá er það ekki endilega víst. Það gæti verið að menn hafi haldið málinu gangandi og þar með lengt fyrningarfrestinn,“ sagir Davíð Oddsson í viðtali í Speglinum.
Hann segir að sér finnst mjög trúverðugt að þarna kunni pottur að vera brotinn. Það hafi verið hann sem kærði á sínum tíma Al Thani málið og þess vegna hafi það verið rannsakað. Hann telji afar mikilvægt að rekja málið alveg niður í botn og það með öflugasta hætti sem völ er á.
Gömul könnun
Davíð mælist með um 18 % fylgi í nýrri könnun MMR en Guðni Th. Jóhannesson með rúm 65%. Davíð segist hvergi banginn og bendir á að könnunin sé í raun gömul því hún sé frá 12. til 20. maí. Hann hafi opnað kosningaskrifstofu sína 13. maí.
„Þannig að þetta er í raun orðin dálítið gömul könnun. Hlutirnir gerast hratt núna. Ég held að staðan nú sé dálítið öðru vísi en sem þessi könnun ber með sér vegna þess hve gömul hún er. Engu að síður er það hárrétt að það það virðist vera á brattann að sækja. Það er ekkert lakara að sækja á brattann ef maður væntir þess að komast upp. Nú ef það gerist ekki þá er enginn stórskaðið skeður í mínu tilliti," segir Davíð Oddsson.
Sýndi ekki vanrækslu í bankahruninu
Í rannsóknarskýrslunni um falla bankanna kemur fram að Davíð og reyndar fleiri hafi sýnt vanrækslu í ljósi í ljósi laga um aðdraganda og orsaka falls íslensku bankanna 2008. Óttast Davíð að gamlir draugar frá þeim tíma hafi áhrif á gengi hans í kosningunum? Hann segir að þetta sé ekki rétt túlkun á rannsóknarskýrslunni.
„Það kemur mjög glöggt fram í skýrslunni að Seðlabankinn var kannski eina stofnunin í landinu sem stóð í lappirnar. Og ég
alveg sérstaklega sá sem veitti útrásarköppunum viðnám og varaði mjög við útþenslu bankanna. Gerði það ekki bara í minnisblöðum og fundum með ráðamönnum heldur jafnframt á opinberum mannamótum, viðskiptaþingum og slíku. Og þegar upp er staðið eftir allt sem var búið að dengja á mig og félaga mína í bankanum voru tvö lítil atriði nefnd til sögunnar. Annað var að við hefðum átt að taka okkur vald sem við höfðum ekki og taka fram fyrir hendurnar á Fjármálaeftirlitinu. Það var auðvitað ekki hægt. Það var ólögmætt. Hitt atriðið var mjög smávægilegt,“ segir Davíð.
Þarf öflugan forseta
Davíð segir að þörf sé á öflugum forseta á sama tíma og þingið sé frekar vanburða. Undir slíkum kringumstæðum væri ekki gott að hafa forsetaembættið í veikum höndum. Menn verði að hafa burði og reynslu.
„Ekkert kemur í stað reynslunnar. Menn geta ekki grúskað í gömlum fræðum og talið það vera reynslu. Það er ekki reynsla. Menn verða að hafa reynslu og þekkingu til að geta brugðist við. Hana hef ég. Það getur enginn neitað því. Ég er ekki að gera ráð fyrir því, ef ég verð valinn, að ég verði meira en í hæsta lagi tvö kjörtímabil. Eitt eða tvö kjörtímabil,“ segir Davíð Oddsson.