Dag Hammarskjöld, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, var drepinn í Kongó árið 1961. Í nýrri heimildarmynd, sem frumsýnd verður á Sundance í kvöld, segir að flugmaður hafi viðurkennt morðið. Dauðasveit frá Suður-Afríku ruddi úr vegi þeim börðust fyrir sjálfstæði Afríkuríkja og vildi tryggja áframhaldandi yfirráð hvíta kynstofnsins yfir auðlindum Afríku.
Dag Hammarskjöld var annar framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá upphafi, frá 1953 þar til hann lést 18. september 1961. Hann er af mörgum talinn merkasti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og John F. Kennedy Bandaríkjaforseti sagði hann mesta stjórnmálaskörung aldarinnar. Í nýrri heimildarmynd sem verður frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni segir að orrustuflugmaður hafi viðurkennt að hafa skotið flugvél hans niður og að fjarvistarsönnun hans haldi ekki vatni.
Enginn skortur á samsæriskenningum
Hingað til hefur ekki tekist að færa sönnur á hvort eða hverjir stóðu að morðinu. Flestar kenningar ganga út á að Hammarskjöld hafi verið drepinn og að morðinu hafi staðið mismunandi útgáfur af leyniþjónustum Bretlands og Bandaríkjanna, risastórt belgískt námufélag og sérsveit frá Suður-Afríku sem barðist fyrir áframhaldandi yfirráðum hvíta kynstofnsins í Afríku. Allir áttu að vilja tryggja óbreytta nýtingu auðlinda á róstursömum tíma í Afríku.
Leynileg verkefni, stríðsrekstur og valdarán
Erkibiskupinn Desmond Tutu, formaður Sannleiksnefndarinnar í Suður-Afríku, kynnir hér niðurstöðu nefndarinnar og segir frá skjölum frá SAIMR - Rannsóknarstofnun Suður-Afríku í siglingarmálum - um dauða Dag Hammarskjöld. Þessi stofnun eða samtök voru í raun vígasveit nátengd hvítu aðskilnaðarstjórninni í Suður-Afríku sem sendi liðsmenn sína í leynileg verkefni um alla Afríku, meðal annars Kongó, Sierra Leone, Angola og Mosambik. Í nýju heimildarmyndinni segir einn liðsmanna þeirra að þetta hafi verið leynileg verkefni, stríðsrekstur og valdarán. Kynþáttafordómar hafi grasserað innan samtakanna sem átti að tryggja áframhaldandi yfirráð hvíta kynstofnsins í Afríku. Viðtöl við liðsmenn og önnur gögn sýna að samtökin stærðu sig af því að hafa staðið að morðinu á Dag Hammarskjöld og myndir sýna liðsmenn þeirra við brotlenta vél framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Í handskrifuðu æviágripi Keith Maxwell, leiðtoga samtakanna, segir hann samtökin hafa drepið Hammarskjöld. Desmond Tutu sagði þegar niðurstöðurnar voru kynntar fyrir tveimur áratugum að Sannleiksnefndin hefði ekki umboð til að rannsaka þessi tengsl SAIMR-samtakanna og leyniþjónustu Suður-Afríku, Bandaríkjanna og Bretlands við morðið á Dag Hammarskjöld. Samkvæmt gögnunum sáu SAIMR-samtökin um skipulagningu tilræðisins í samvinnu við vestrænar leyniþjónustur. Þessi gögn voru síðan læst niður í skúffu og ekki einu sinni rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðirnar hefur fengið aðgang að þeim.
Tilræðið átti að virðast slys eða hjartaáfall
Skjöl Sannleiksnefndarinnar og æviminningar Keith Maxwell, leiðtoga SAIMR-samtakanna, virðast sýna að þau hafi skipulagt ódæðið. Maxwell skrifar að tilræðið yrði að líta út sem slys eða hjartaáfall til að tryggja að ekki væri hægt að gera Dag Hammarskjöld og samstarfsmenn hans að píslarvottum. Hann segist hafa látið undirbúa þrjár mismunandi aðferðir til að ráða hann af dögum. Ein þeirra fólst í því að koma sprengju fyrir í hjólabúnaði vélarinnar. Hann segist hafa verið miður sín þegar hún spakk ekki í flugtaki. Ekki kemur fram hvert plan B var en plan C var að senda orrustuflugvél á loft úr frumskóginum og granda vélinni. Síðan lýsir hann því hvernig öll nótt virtist úti þegar sendimaður kom í herráðsherbergi samtakanna með ánægjuleg skilaboð, að hans mati. Flugvélin fórst og með henni framvkæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Skapaði sér þannig óvild og hatur valdamikilla manna
Dag Hammarskjöld lést þegar mörg Afríkuríki voru að öðlast sjálfstæði undan nýlenduherrum og harðvítug barátta stóð um ríkulegar auðlindir álfunnar. Hammarskjöld barðist ötullega með sjálfstæðissinnum gegn hvítum minnihlutastjórnum og skapaði sér þannig óvild og hatur valdamikilla manna. Þegar flugvél hans var skotin niður var hann að reyna að koma á friði í Kongó sem nýlega var orðið sjálfstætt ríki. Kongó var reyndar að hruni komið og uppreisnarmenn höfðu lýst yfir sjálfstæði í Katanga, langríkasta héraði landsins, með ógrynni auðlinda og með stuðningi vestrænna námufyrirtækja.
Varð að ryðja honum úr vegi
Alexander Jones, liðsmaður Samtakanna um langt árabil, var hátt settur í samtökunum, stýrði hernaðaraðgerðum víða í Afríku og drap mann og annan. Hann segir í myndinni að samtökin hafi farið um alla álfu til að þagga niður í andstæðingum yfirráða hvíta mannsins í Afríku gegn ríflegri þóknun. Hann segir að Dag Hammarskjöld hafi verið öflugasti andstæðingur yfirráða hvíta minnihlutans í Afríku og þess vegna hafi hann verið drepinn. Hammarskjöld vildi breyta því hverjir fóru með völdin í Afríku og þar með yfirráð yfir gríðarlega verðmætum auðlindum þess. Þess vegna varð að ryðja honum úr vegi.