Þó að okkur takist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og standa við Parísarsamkomulagið mun Grænlandsjökull hverfa. Jöklafræðingur segir að spurningin sé bara hve hratt. Sérfræðingar búast við að yfirborð sjávar hækki um að minnsta kosti einn metra fram til loka þessarar aldar.
50 sinnum hraðar
Margir hafa áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga á Grænlandsjökul og ísinn á norðurhveli jarðar. Margar rannsóknir hafa verið gerðar um hve hratt ísinn bráðnar. Í frétt RÚV frá því í ágúst 2012 var sagt frá rannsóknum bandarískra vísindamanna á norðurheimskautinu. Þær bentu til þess að þá hefði ísinn ekki verið minni í 33 ár eða frá því mælingar hófust. 1. ágúst 2012 hefði lagnaðarísinn á norðurheimskautinu þakið 6,53 milljónir ferkílómetra sem var nokkuð minna en í ágúst árið áður sem var þá metár í ísleysi. Þá hafi ísinn norður af Grænlandi verið um fimm metra þykkur en var sex metrar 10 árum áður. Niðurstaða vísindamannanna var að ísinn á norðurskautinu bráðni 50 sinnum hraðar en áður hefði verið spáð. Allt að 900 rúmkílómetrar af ís hafi bráðnað árlega frá árinu 2004.
Morgunblaðið sagði frá því í maí á þessu ári að rannsóknir sem hefðu staðið yfir í 10 ár bendi til þess að Grænlandsjökull bráðni hægar en óttast hafi verið. Rannsóknin sem birt var í tímaritinu Science sýndi að yfirborð sjávar myndi hækka um 80 cm fram til ársins 2100 en ekki um tvo metra eins og rannsóknir bentu til. Haft var eftir Twila Moon sérfræðingi frá Háskólanum í Washington að enn sé mörgum spurningum ósvarað. Og vísindamenn halda áfram að reyna að finna sannleikann um örlög íssins á norðurhveli.
Tvær gráður dauðadómur
Í nýrri vísindagrein sem birt var í Polar Science er varað við því að hættan sem steðjar að ísnum á norðurhveli og Grænlandsjökli sé mun meiri en talið hafi verið. Tíu vísindamenn standa að greininni og koma víðs vegar að. Jason Box, bandarískur prófessor við dönsku jarðfræðistofnunina, segir í viðtali við danska ríkisútvarpið að þó að okkur takist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og standa við markmið Parísarsamkomulagsins haldi Grænlandsjökull áfram að bráðna. Spurningin sé bara hversu hratt. Jason hefur tekið þátt í 20 vísindaleiðöngrum frá árinu 1990. Hann bendir á að Parísarsamkomulagið kveði á um að hitastig jarðar hækki að hámarki um tvær gráður. Tveggja gráðu hækkun hitastigs sé dauðadómur yfir Grænlandsjökli.
Mörkin lægri
Vísindamenn hafa fram til þessa bent á að sársaukamörkin fyrir ísinn á norðurslóðum séu á bilinu tvær til fimm gráður. Mörkin eru þegar jökullinn bráðnar meira en hann stækkar yfir vetrartímann. Nýjar rannsóknir benda til þess að þessi mörk séu lægri, á bilinu 0,8 til 3,2 gráður, líklega séu þau um 1,6 gráður. Sebastian Mernild loftslagsprófessor við Nansen-stofnunina í Bergen segir að meðalhitinn hafi hækkað um 1,1 gráðu. Það valdi áhyggjum vegna þess að meðalhitinn hækki hraðar á norðurslóðum.
Ástandið er þegar orðið þannig að meira af ís hverfur á Grænlandi en verður til yfir veturinn. Það er bæði vegna bráðnunar og ísjaka sem brotna úr jöklinum og bráðna í hafinu. Jason Box segir að líkja megi ástandinu við fjárlög eða fjárhagsstöðu. Staðan á Grænlandi sé nú þegar neikvæð.
150 lítrar á mann á dag
Talið er að ísmassinn á Grænlandi minnki árlega um 250 milljarða tonna. Ef þessu ísfjalli er skipt niður á íbúa jarðarinnar svarar það til um 150 lítra á hvert mannsbarn á dag. Yfirborð jökulsins á Grænlandi er um 1.710.000 ferkílómetrar sem er næststærsta ísbreiða í heiminum á eftir Suðurskautslandinu. Meðalþykkt jökulsins er um 1.500 metrar en á nokkrum stöðum er hún yfir 3.000 metrar. Ef allur þessi ís bráðnar og rennur út í sjó hækkar yfirborð sjávar í heiminum um 7,2 metra. Það gerist þó ekki fyrr en eftir hundruð ára en Jason Box varar við því að sjávarborð eigi eftir að hækka talsvert á næstu áratugum. Hann segir að það sé erfitt að leggja fram trúverðuga spá um hve hratt ísinn á norðurhveli bráðni og hve mikilli hækkun á yfirborði sjávar það valdi. Hins vegar reikna vísindamennirnir, sem unnu þessa skýrslu, með því að yfirborð sjávar hækki um að minnsta kosti einn metra eða jafnvel meira í lok þessarar aldar, segir Jason Box.
Box segir að ef við ætlum að snúa við þessari þróun og bjarga jöklunum á norðurslóðum þyrfti að soga gríðarlega mikið af gróðurhúsalofttegundum úr andrúmsloftinu. Eyða þyrfti 900 milljörðum tonna af koltvísýringi. Það svarar til þess að planta trjám á svæði sem er fimm sinnum stærra en Ástralía. Hann segir að svo stórt svæði sé ekki til staðar og þess vegna verði að nota aðrar aðferðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.