„Ég held að aðaldanssenan þarna sé bara flottasta danssena sem ég hef séð í bíómynd,“ segir Halla Þórðardóttir dansari. Hún leikur í kvikmyndinni Suspiria eftir ítalska leikstjórann Luca Guadagnino, sem er byggð á samnefndri mynd Dario Argento frá 1977.

Suspiria segir frá bandarískum dansnema sem flytur til Þýskalands til að stunda nám við merkilegan dansskóla. Það verður þó fljótt ljóst að þetta er ekki hefðbundinn skóli heldur eru þar yfirnáttúruleg og ógnvænleg öfl á kreiki sem vilja henni illt. Það var ekki síst maximalísk fagurfræði ítalska leikstjórans Dario Argento – ýkt, litrík, síkadelísk – sem gerði Suspiriu að hálfgerðri költ-mynd sem harðkjarna aðdáendahópur dýrkar og dáir.

Söguþráður nýju útgáfunnar er svipaður og í upprunalegu gerðinni. Guadagnino hefur þó undirstrikað það að myndin sé ekki endurgerð, heldur sé hún innblásin af kvikmynd Argentos og þeim áhrifum sem hún hafði á hann þegar hann sá hana fyrst þegar hann var 13 ára. Eins og í fyrri myndinni er fylgst með bandaríska stúlku Suzy Bannon sem kemst í hann krappann í djöfullegum dansskóla í þýskalandi árið 1977. Danslistin spilar sem áður stórt hlutverk í myndinni og eru atvinnudansarar í stórum hlutverkum, meðal annars Halla.

„Ég hafði unnið áður með [Damien Jalet] danshöfundi myndarinnar þegar hann kom hingað til landsins að setja upp verk með íslenska dansflokknum,” segir Halla. „Þegar hann fékk þetta verkefni upp í hendurnar þá fékk hann líka að velja dansara til að vinna með. Þannig að hann hafði samband við dansara hvaðanæva að úr heiminum.“

Halla var í stopulu símasambandi uppi á hálendi Íslands þegar henni barst tilboðið um að leika í kvikmyndinni, og fékk að vita að hennar uppáhaldsleikkona, Tilda Swinton, færi með stórt hlutverk í kvikmyndinni.

„Ég leik dansarann Macia, sem fær að segja eina setningu í myndinni. En ég dansa líka og dansinn knýr myndina áfram og er undirliggjandi afl. Það er mjög gaman að sjá, sem dansari. Svo er ég líka aðstoðardanshöfundur og tók þátt í að þjálfa leikkonurnar. Þannig að ég kem að þessu úr ýmsum áttum,“ segir Halla.

Í myndinni koma bara kvendansarar fram og konur fara með öll stærstu hlutverkin. Halla segir myndina því fulla af kvenorku. „Það eru mikil móður-jörð-element í þessu. Dansinn er afl sem getur drepið, hann er afl sem getur lífgað við. Hann er stærsta aflið í myndinni. Það er rosalega gaman að sjá mynd sem sýnir dans á þennan hátt, þetta er ekki staðalímyndun um dans eða dansara, þetta er ekki klassískur ballet eða breikdans, þetta er grasrót í rauninni. Þetta fjallar um nornir og þær myndu kannski aldrei verða í meginstraumnum.“

Suspiria verður frumsýnd á Íslandi fimmtudaginn 6. desember og Halla verður heiðursgestur.