Gauti Kristmannsson rýnir í ljóðabók rússnesk-bandaríska ljóðskáldsins Ilya Kaminsky, Dansað í Odessa. Þýðing bókarinnar var síðasta verk Sigurðar Pálssonar áður en hann lést.


Gauti Kristmannsson skrifar:

Á ensku Wikipediu er Ilya Kaminsky lýst sem rússnesk-bandarískum gyðingi fæddum í Úkraínu og að hann sé ljóðskáld, gagnrýnandi, þýðandi og prófessor. Sú Úkraína sem hann fæddist í árið 1977 var líka hluti Sovétríkjanna gömlu. Hann fékk ásamt foreldrum sínum pólitískt hæli í Bandaríkjunum 1993, þannig að hann var 16 ára þegar hann fluttist í nýtt land og kunni þá ekki neina ensku að heitið geti, segir á netinu.  

Hann var byrjaður að yrkja á rússnesku þá þegar og samkvæmt viðtali við hann tók hann að yrkja á ensku ári síðar, eða skömmu eftir að faðir hans lést. Hann segir í sama viðtali að það hafi verið til þess að enginn annar í fjölskyldunni gæti skilið ljóðin hans, því fólkið hans kunni litla ensku, alveg eins og hann. Þetta hafi verið hliðarveruleiki sem veitti honum sturlað frelsi. Annað mikilvægt atriði úr ævisögu hans er sú staðreynd að hann missti heyrn í hettusótt þegar hann var fjögurra ára. 

Þrátt fyrir þær mörgu hindranir sem hann þurfti að yfirstíga sem unglingur, flóttamaður, innflytjandi, heyrnarskertur, þá gekk honum vel í skóla þar sem hann stundaði nám í stjórnmálafræði og síðar lögfræði. Það var gott og blessað, en skáldskapurinn sigraði hin praktísku gildi eftir sem áður, því að ljóðabók hans sem hér er til skoðunar, Dansað í Ódessa, sló rækilega í gegn í Bandaríkjunum þegar hún kom út árið 2004 og var hún þegar ausin lofi gagnrýnenda og raðaði upp verðlaunum og síðar þýðingum á önnur mál, og nú á síðasta ári, kom hún loksins út á íslensku, þökk sé Sigurði Pálssyni, sem tókst verkið á hendur fárveikur og varð þetta verk svanasöngur hans í ljóðlistinni. Honum tókst reyndar ekki alveg að ljúka því, en kollegi hans og vinur, Sölvi Björn Sigurðsson, tók upp þráðinn og lauk verkinu svo unnt væri að koma því út. Er þetta í raun annað tveggja heimsbókmenntaverka frá síðasta ári sem þannig er farið um, en Gunnar Þorri Pétursson lauk einmitt við þýðingu Ingibjargar Haralds á skáldsögunni Hinir smánuðu og svívirtu eftir Fjodor Dostojevskí. 

Rifið í rökhyggjuna

Það sem einkennir ljóð Kaminskys við fyrstu sýn er óvenjuleg nálgun til tungumálsins og röklegrar hugsunar, hann rífur í rökhyggjuna með óvæntum samsetningum, refhvörfum nánast, en þó ekki, eða eins og hann segir í fyrsta ljóðinu, eins konar tileinkun sem nefnist „Bæn höfundar“, þá getur hann „dansað í svefni og hlegið // frammi fyrir speglinum. / Jafnvel svefn er bæn, Drottinn, // ég vil lofsyngja sturlun þína, og / á tungu sem sem ekki er mín vil ég tala...“

Hér er eitt meginþemað aftur nefnt eins og í titlinum, dansinn stendur fyrir einhverja ljóðræna tilvistarhreyfingu á milli vitundar- og tilverusviða; með dansinum setur ljóðmælandinn sig í spor annarra og tjáir hreyfingar sínar milli þessara, við fyrstu sýn, ósamrýmanlegu sviða. Beiting tungumálsins er þarna kjarninn, beiting tungumáls af hálfu höfundar sem ekki er að yrkja á móðurmálinu, þótt vald hans á þessu öðru máli sé augljóst og ótvírætt.

En eins og flestir vita sem reynt hafa að semja eitthvað meira en mataruppskrift á öðru eða þriðja máli, þá hafa menn annað og kannski fremur meira abstrakt samband við það mál. Samtímis er það einhvern veginn gagnsærra; við sjáum merkingu þar sem innfæddir eru löngu hættir skynja hana, eða margræðni þar sem hinum sömu finnst þetta vera tiltölulega einfalt. Það er með þessum leik að merkingu og óvenjulegum samstæðum sem Kaminsky tekst að skapa sitt ljóðmál, ljóðmál sem gengur alveg upp á ensku og leikandi í þýðingu hjá þeim Sigurði og Sölva Birni. 

Súrrealísk endursköpun æskuminninga

Á eftir formála Sölva Björns og „Bæn höfundar“ skiptist bókin í fimm sumpart ólíka hluta, að öðru leyti tengir skáldið þá þó velflesta með endurteknum hugmyndum og þemum, dansinum, tónlist, nóttum, fuglum, öðrum gyðingaskáldum og útlögum, og yfirgefninguna ef svo má segja, hvort sem um er að ræða nána ættingja sem frá falla, eða ferð eitthvert annað fyrir fullt og allt. Fyrsti kaflinn er samhljóða titli bókarinnar og hefur greinilega að geyma einhvers konar æskuminningar, mótaðar á löngum tíma gegnum drauma og nánast súrrealíska endursköpun þeirra í ljóði löngu seinna.

Minningin um afa og ömmu í ljóðinu „Hlátri til dýrðar“ er sár, hann „skrifaði fyrirlestra um framboð // og eftirspurn skýja í landinu okkar: / ríkið lýsti hann fjandmann fólksins.“ Síðar í ljóðinu segir „hann var skotinn og ömmu var nauðgað / af ríkissaksóknara sem stakk kúlupenna inn í hana, // þessum penna sem skrifaði fólk í burtu næstu tuttugu árin.“ Ljóðinu lýkur hann svo með hugleiðingu um gildi minninganna eða fánýti:

En í leyndri sögu reiðinnar – þögn eins manns
lifir í líkama annarra – meðan við dönsum til að detta ekki,
milli læknisins og ríkissaksóknarans: 
fjölskylda mín, fólkið í Ódessa, 
konur með risastór brjóst, gamlir einfaldir og barnslegir karlmenn, 

öll orðin sem við segjum, hrúgur af brennandi fjöðrum 
sem fjúka lengra burt í hvert skipti sem þau eru endurtekin.

Ljóðið sem bókin og kaflinn heita eftir er síðan miklum mun gleðilegri minning þar sem skáldið notar augu barnsins til snúa upp á venjulega atburði og merkingu þeirra, en kemur um leið kjarna málsins að: „Við bjuggum norðan við framtíðina, dagarnir opnuðu / bréf með barnalegri utanáskrift...“

Við erum stödd í Ódessu áttunda áratugarins þar sem „nóttin klæddi okkur úr fötunum (ég tók púlsinn / á henni) móðir mín dansaði, hún fyllti liðna tíð / með ferskjum, kastarollum.“ Undir lok ljóðsins áréttar ljóðmælandinn veruleika þeirra sumpart annarlegu lína sem á undan eru gengnar: „Á næturnar vaknaði ég og hvíslaði: já, við lifðum. / Við lifðum, já, ekki segja að það hafi verið draumur.“ Þessi þversögn draumkennds veruleika er einn af þráðum þessarar bókar.

Dansinn er annar, eins og heyra má af þessum örfáu tilvitnunum; þetta minnir mann lokalínu kvæðisins „Á meðal skólabarna“ eftir írska skáldið William Butler Yeats „hvernig sjáum við muninn á dansaranum og dansinum“, þetta er lausleg þýðing mín, en mér hefur skilist að Sölvi Björn, annar þýðenda þessarar bókar sé einmitt að fást við Yeats nú um stundir.

Skáldabræður af gyðingaættum

Næsti kafli snýst um einn af skáldbræðrum Kaminskys af gyðingaættum, Osip Mandelstam, skáld sem mörg skáld eru hrifin af og eitthvað hefur verið þýtt eftir hann á íslensku. Þetta er sérstæð uppsetning á stuttum prósafrásögnum úr lífi skáldsins og konu hans Nadezhdu, sviðsettum í goðsagnaheimi að vissu leyti og að öðru leyti í þeim sovéska veruleika sem varð Mandelstam að aldurtila.

Án vafa er Kaminsky að taka ofan fyrir forvera sínum og halda minningu hans á lofti, rétt eins og Pauls Celans og Isaac Babels, en allir þrír eiga það sameiginlegt að hafa látið lífið fyrir aldur fram, Mandelstam og Babel í krumlum sovéskra böðla, en Celan, sem lifði af Helförina og bjó í París eftir stríð, fleygði sér í Signu eftir erfitt andlegt stríð eftirlifanda.

Jósef Brodský fær síðan umfjöllun í elegíu þar sem við sjáum sambærileg lífshlaup skáldanna sem útlaga og síðan bandarískra skálda af rússneskum og gyðinglegum uppruna. Eina konan sem Kaminsky fjallar um (að undanskilinni Natalíu, ástkonu ljóðmælanda) er Marína Tsvetaeva, en hún hefur löngum verið talin til stórskálda rússneskrar tungu á tuttugustu öl og hún féll fyrir eigin hendi fremur en að lenda í krumlum njósnastofnunar Stalíns, NKVD, forvera KGB. Kaminsky hefur líka þýtt nokkur ljóða hennar á ensku og birt.

Framandlegur léttleiki

Dansað í Ódessa fer með lesendur sína langar leiðir, enda kveðst höfundur eða ljóðmælandi hafa fæðst í borginni sem nefnd er eftir Ódysseifi og bætir við „og ég lofsyng enga þjóð“, en ég áttaði mig á því þarna hversu víða skáldið tekur lesendur sína; um æskuslóðir skáldsins í Ódessu, fjölskyldulíf hans, en einnig hneigir hann sig fyrir fyrirmyndum sínum á skáldabekk, eða sýnir þeim a.m.k. virðingarvott og vel má fullyrða að hann sé í samtali við þau öll og hefur til þess fágætt tækifæri á lærðu máli, sem um leið er heimsmálið enska.

En líkast til er það einmitt framandleiki tungumálsins sem hann vinnur með sem gerir meðhöndlun hans á ljóðmáli svo athyglisverða, og enn athyglisverðara er hversu vel þýðendurnir, Sigurður og Sölvi Björn, ná að skila þessum framandlega léttleika inn í íslenskuna. Það er ekki ónýtt að dansa með svona fólki.