Danir sáttari og í verri stöðu en Íslendingar

11.08.2017 - 13:08
epa06130348 Danish players are surrounded by their fans as the Danish soccer players were celebrated at Copenhagen Town Square after winning the silver medal at the European Championships in Copenhagen, Denmark, 07 August 2017.  EPA/Bax Lindhardt DENMARK
 Mynd: EPA  -  SCANPIX DENMARK
Greiningadeild Arion banka segir erfitt að sjá hvers vegna Íslendingar eru miklu ósáttari við húsnæðismarkaðinn en Danir. Mun fleiri Íslendingar telja erfiðara en Danir að finna húsnæði á viðráðanlegum kjörum, þrátt fyrir að íbúðaverð í hlutfalli við laun sé hærra í Danmörku en hér á landi. Skuldir íslenskra heimila eru einnig mun lægri en í Danmörku og bið eftir félagslegu húsnæði þar í landi getur verið á bilinu tíu til fjörutíu ár.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildarinnar í morgun. Þar segir að Danmörk og Ísland vermi fyrsta og þriðja sæti vísitölu félagslegra framfara. Danmörk er hins vegar í sjöunda sæti í mælingu á aðgengi að húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Ísland er í áttugasta og þriðja sæti. Þennan mun er að mati greiningardeildar erfitt að skýra, en vísitalan mælir upplifun fólks á stöðunni.

Þannig er bent á að íbúðaverð hefur hækkað mun hraðar en laun í Danmörku en á Íslandi og eyða Danir því hærra hlutfalli af launum sínum í húsnæði en Íslandingar. Skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eru þar að auki mun lægri hér en í Danmörku. Á Íslandi er hlutfallið 150% en í Danmörku 300%.

Húsnæðiskostnaður telst vera verulega íþyngjandi þegar hann er yfir 40% af ráðstöfunartekjum heimila. Fjölskylda í 140 fermetra húsi í Kaupmannahöfn þarf að greiða 50% af ráðstöfunartekjum heimilis í húsnæðiskostnað, 40% í úthverfum borgarinnar og 20% á jaðarsvæðum.

Heimili þar sem húsnæðiskostnaður er íþyngjandi eru fleiri í Danmörku en annars staðar á Norðurlöndum. Þetta á við bæði þegar horft er til tekjulægstu heimilanna og allra heimila. Helmingur tekjulægstu heimilanna í Danmörku býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað, samanborið við 30% á Íslandi og 10% í Finnlandi. 15% allra danskra heimila eru í þessari stöðu samanborið við 10% á Íslandi og 5% í Finnlandi.

Þrátt fyrir þetta fjölgar þeim Dönum sem telja sig geta fengið húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Árið 2014 töldu 70% Dana sig vera í þeirri stöðu en 76% í dag. Á sama tímabili fækkaði Íslandingum sem eru sömu skoðunar úr 46% í 40%. Þetta gerist á sama tíma og hlutfall félagslegs húsnæðis í Danmörku fer lækkandi og danskir fjölmiðlar fjalla um tíu til fjörutíu ára bið eftir félagslegu húsnæði í Kaupmannahöfn. 

Bjartsýni Dana í þessum málum skýrist að mati greiningardeildar ekki af því að hlutfall leigjenda er hærra en hér á landi og leiguverð lægra. Leiguverð í Danmörku hefur hækkað hægar en húsnæðisverð undanfarin misseri, rétt eins og á Íslandi. Það hefur engu að síður hækkað umfram meðallaun og því erfitt að sjá hvers vegna fleiri Danir telja sig hafa greiðari aðgang að húsnæði nú en áður.

Skýringar á þessu hugarfari Dana má örugglega finna með einhverjum hætti. Hana er hins vegar ekki að finna í hefðbundnum hagvísum og mælikvörðum.

 

Gunnar Dofri Ólafsson