Daniel Craig mun slá met Roger Moore

25.07.2017 - 15:12
epa04630252 British actor Daniel Craig performs during the shooting of the 24th James Bond movie 'Spectre' in Rome, Italy, 21 February 2015. The filming of the new Bond movie, which is to be released in November 2015, takes place in Italy from
 Mynd: EPA  -  ANSA
Framleiðendur James Bond myndanna sendu frá sér heldur stuttorða yfirlýsingu fyrir tveimur dögum síðan, en efnið var fyrirhuguð dagsetning frumsýningar næstu Bond-myndar. Það vakti nokkra athygli að hvergi mætti lesa stakt orð um hvaða leikari fengi aðalhlutverkið, hlutverk Bond, James Bond. Í gær sendu Metro Goldwin Mayer síðan frá sér staka yfirlýsingu þess efnis að Daniel Craig tæki að sér hlutverk Bond í fimmta sinn.

Næsta kvikmynd um ævintýramanninn James Bond verður frumsýnd þann 8. nóvember 2019. Spurningin um hver fari með hlutverk Bond í 25. myndinni um samnefnda hetju, hefur brunnið á mörgum síðustu misseri. Síðustu mánuði hafa vefmiðlar logað af getgátum og óskum um að hinir ýmsu leikarar og jafnvel leikkonur smelli sér í gervi njósnara hennar hátignar. Daniel Craig sem farið hefur með hlutverk Bond frá árinu 2006 lét hafa eftir sér í viðtali við breska blaðið The Guardian árið 2015 að hann myndi frekar skera sig á púls en að snúa aftur í hlutverkið. Í sama viðtali gaf hann út að honum væri hjartanlega sama hver tæki við af honum. Nú virðist honum sannarlega hafa snúist hugur. 

Tom Hardy þótti líklegur

Samkvæmt breskum veðbönkum voru vinsælustu nöfnin nefnd í þessu samhengi þeir Idris Elba, Tom Hardy og Aidan Turner, en einnig hafa nöfn Michael Fassbender og Tom Hiddleston komist á blað. Þá þótti leikarinn Tom Hardy líklegastur af þessum fimm og þóttu líkurnar vera þrír á móti einum. Ekki þykir ólíklegt að einhver þessara leikara verði næstur í röðinni þegar Daniel Craig leggur að lokum smókinginn á hilluna.

Met Roger Moore verður slegið

Það markar því kaflaskil að formleg yfirlýsing hafi borist frá framleiðendum þess efnis að Daniel Craig muni halda áfram störfum sínum sem James Bond, en þetta kemur fram á vef Independent. Á hann fjórar slíkar myndir að baki og hefur hlotið mikið lof fyrir. Var fyrsta Bond mynd með Craig í aðalhlutverki, Casino Royale frá árinu 2006, sú söluhæsta í sögu myndanna. Hélt hún metinu þangað til myndin Skyfall sló metið árið 2012.

Roger Moore er núverandi methafi yfir lengstu setu í hlutverki Bond, en Moore var Bond í 5.118 daga, og lék kappann í sjö myndum. Nú hefur Bond-ferill Daniel Craig spannað alls 4.302 daga, og á fyrirhuguðum frumsýningardegi næstu myndar verður Bond seta Daniel Craig orðin 5.144 dagar, sem þýðir að gamla metið frá árinu 1983 verði að öllum líkindum slegið. Roger Moore lést þann 23. maí síðastliðinn, 89 ára að aldri.