„Sagan snýst langmest um stelpur sem eru skotnar í strákum, fara á túr, skoða instagram og eru á trúnó, horfa á þætti, mála sig, fara á ball og fá sér bjór. Sennilega er þetta raunsæislegur reynsluheimur flestra íslenskra unglingsstúlkna á 21. öld og það er frábært að draga hann fram,“ segir Steinunn Inga Óttarsdóttir um Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur, en þarf myndmálið að vera svona dæmigert og niðurdrepandi, spyr Steinunn um leið.
Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:
Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur gerist í Reykjavík samtímans og virðist vera hefðbundin og raunsæ unglingabók sem fjallar um venjulega unglinga og allt þeirra venjulega vesen en svo fer eitthvað nýtt, spennandi og yfirnáttúrulegt að gerast. Dyr opnast af sjálfu sér, súgur fer um sali, krossar snúast og draugar mæta á skólaball.
Kría er 16 ára og nýflutt til Reykjavíkur. Hún býr í miðbænum með pabba sem er arkitekt og verkfræðingnum móður sinni, hún byrjar í MR, er þá ekki allt í sómanum? Nei, ekki alveg, Kría er með vafasama fortíð sem er ástæðan fyrir því að fjölskyldan hraktist úr heimabænum, og amman sem býr á neðri hæðinni, er greinilega með óhreint mjöl í pokahorni. Þetta gæti orðið spennandi saga.
Kría kynnist krökkum í skólanum sem eru fallegir og ríkir, lepja latté og spila á selló. Elísabet Snæhólm er ein bekkjarsystirin, dóttir rektors, hress og skemmtileg stelpa, ráðagóð og sjálfstæð. Aðrir krakkar eru dregnir daufari dráttum og renna einhvern veginn saman, nema ljónið sem bókin heitir eftir; leyndardómsfullur gaur að nafni Davíð sem hugsar á öðrum brautum en flestir og er auðvitað einstaklega heillandi fyrir vikið.
Elísabet hressa og hin hlédræga Kría verða góðar vinkonur og þegar þær komast á snoðir um mannshvarf í Snæhólm-fjölskyldunni fyrir löngu, ákveða þær að komast til botns í því máli. Sagan fjallar þó mest um þroska Kríu og lausn hennar undan þrúgandi atburðum fortíðar og nýja hversdagslífið hennar „með sínum smásigrum og -sorgum“ (410) en minna um lausn hins óhugnanlega og óleysta lögreglumáls, sem reyndar er býsna fyrirsjáanleg að minnsta kosti fyrir miðaldra lesanda.
MR er sveipaður einhverjum gullnum ljóma, þar er fjörugt félagslíf og sætir strákar, þar er setið við heimanám öll kvöld og allar helgar til að mæta metnaðarfullum kröfum skólans og þar fær einmana unglingur að norðan tækifæri til að eignast vini og nýtt líf. Nostalgían er aðeins of mikil í lýsingum á kennslustundum og húsnæði skólans. Og það verður að segjast að allt gerist lúshægt í þessari rúmlega 400 blaðsíðna bók.
Kría upplifir í fyrsta sinn að vera ástfangin og sofa hjá. Lýsingin á því er leyst af hendi með líkingunni fornu við flugeldasýningu sem ég hélt að Auður Haralds hefði afbyggt og gert útlæga úr bókmenntum. En „Þegar hann fór inn í hana þandist hver einasta taug í líkama hennar út, þar til allt sprakk í neistaregni og rann síðan saman við myrkrið“ (255).
Elísabet á býsna góða ræðu í bókinni sem hún heldur þegar Kría hefur áhyggjur af því að verða kölluð drusla af því að hún sýndi meiri áhuga á kynlífi en kærastinn var tilbúinn í:
„Sko, okkur er innrætt að við eigum alltaf að vera sexí og sætar og það það sé það sem skiptir mestu máli í lífinu. En svo eru við látnar skammast okkar fyrir að vilja kynlíf. Ég meina, eigum við að vera fokking kynverur eða ekki? Ákveddu þig, heimur! Þetta er bara fokking drusluskömmun og ekkert annað. Þú ert bara að drusluskamma sjálfa þig, Kría. Og þú skalt bara steinhætta því. Bara á stundinni. Þú mátt vera eins mikil drusla og þér sýnist og það er er nákvæmlega ekkert að því. Og hana-fokking-nú“ (287).
Þessi boðskapur er góður og gildur og kannski aldrei of oft kveðinn en ég vona að þetta sé ekki opinberun fyrir markhóp bókarinnar, eru ekki allir með þetta á hreinu núna eftir vakninguna í kjölfar Druslugöngunnar?
Traust og ábyrgð eru þemu í sögunni og boðskapurinn sá að skárra er að treysta og vera svikinn en treysta aldrei neinum. Tæpt er á stéttaskiptingu og einelti en án þess að ljá því mikinn þunga, harmsaga svikullar fyrrverandi vinkonu fer svolítið hljótt og reynsla ömmunnar af því að alast upp við fátækt og fordóma er bara bergmál. Sagan snýst langmest um stelpur sem eru skotnar í strákum, fara á túr, skoða instagram og eru á trúnó, horfa á þætti, mála sig, fara á ball og fá sér bjór. Sennilega er þetta raunsæislegur reynsluheimur flestra íslenskra unglingsstúlkna á 21. öld og það er frábært að draga hann fram, leyfa stelpum að tjá sig frjálslega, segja „fokkjú“ og fleira, eiga löng samtöl um sín hugðarefni - fá þeim rödd og rými. Það er svo sannarlega þarft og brýnt í íslenskum bókmenntum og þakkarvert. Það er auðvitað ekki hægt að leggja það á höfunda barna- og unglingabókmennta að standa einir í því að ala upp „rétthugsandi“ og femíníska þjóðfélagsþegna og breyta staðalmyndunum í samfélaginu. En þarf myndmálið endilega að vera strákur sem ljón, strákur sem spyr gagnrýninna spurninga eins og hvað er skrýmsli, hvað er rétt og rangt, gott og illt (382), og svo stelpa sem er fórnarlambið, gasellan (409)? Það er eitthvað svo dæmigert og niðurdrepandi.
Fyrri bækur Hildar eru mun betri en þessi. Ljónið er langdregin bók, of mikið er um endurtekningar og langar lýsingar án tilgangs eða tilþrifa. Sagan verður því miður ekki eins spennandi og efni stóðu til. Þetta er fyrsta bókin í þríleik um Kríu, Elísabetu og stallsystur, ætli hann endi nokkuð með hátíðlegri útskrift Kríu úr hinum virðulega MR, líkt og Öddu-bækurnar forðum?