Dæmi eru um að ungt fólk í fjárhagsvanda vegna neyslulána skuldi þrjár til fimm milljónir króna, að sögn Ástu Sigrúnar Helgadóttur, umboðsmanns skuldara. Umsækjendum sem óskuðu aðstoða vegna fjárhagsvanda fjölgaði um 6,5 prósent á árinu 2018 miðað við árið á undan.
Hátt í fjórtán hundruð umsóknir bárust embættinu árið 2018 en þær voru rétt rúmlega þrettán hundruð árið 2017. Mest fjölgaði umsækjendum á aldrinum 18 til 29 ára, eða úr 23 prósentum árið 2017 í rúm 27 prósent árið 2018.
Taka lán til að borga lán
Ásta Sigrún sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að miklivægt væri að grípa til aðgerða, skuldsetning ungs fólks sem tekur svokölluð smálán, eða skyndilán, geti verið mjög hröð. Á nokkrum mánuðum geti skuldirnar orðið mjög háar og því miður dæmi um að ungt fólk skuldi háar fjárhæðir. „Þetta er oft vítahringur, í fyrsta lagi. Svo byrjar fólk að taka lán og svo að taka lán til að borga lán. Þetta er einnig í tengslum við vörur og til dæmis er mikið um kaup á netinu og svo þarf maður ekki að horfa lengi í kringum sig til að sjá auglýsingarnar. Þær eru mjög neysluhvetjandi og beinast oft að yngstu kynslóðinni,“ segir Ásta.
Ungt fólk hærra hlutfall þeirra sem leita aðstoðar
Fólk á aldrinum 18 til 29 ára var 5 prósent þeirra sem leituðu til umboðsmanns skuldara árið 2012. Í fyrra var hlutfallið orðið 27,3 prósent. Athugun embættisins leiddi í ljós að helsta ástaðan var sú að meirihluti unga fólksins hafi tekið skyndilán. Ásta segir að embættið vilji frekar nota orðið skyndilán en smálán þar sem að með hinu fyrrnefnda sé lögð áhersla á það hversu auðvelt sé að taka slík lán.
Telur brýnt að stofna miðlægan gagnagrunn
Fólk þarf ekki að fara í gegnum greiðslumat til að fá skyndilán því að þau eru undir tveimur milljónum króna og segir Ásta Sigrún að starfshópur stjórnvalda um úrbætur í málaflokknum hafi lagt til að settur verði á stofn miðlægur skuldagrunnur. „Eina stoppið í dag er ef fólk er skráð á vanskilaskrá. Það vantar yfirsýn yfir skuldsetningar þannig að þú getir ekki bara endalaust gengið á milli fyrirtækja og tekið lán.“