Ævintýri bresku yfirstéttarinnar hafa sjaldan verið vinsælla sjónvarpsefni en síðustu ár, með þáttum eins og Downton Abbey og The Crown. Nýjasta innleggið er míní-serían Patrick Melrose sem sýnd verður á RÚV í haust. Áslaug Torfadóttir kynnti sér málið.


Áslaug Torfadóttir skrifar:

Patrick Melrose er ekki beint skemmtilegur félagsskapur. Þegar við hittum hann fyrir í fyrsta þætti samnefndrar míní-seríu á Showtime er hann nýbúinn að sprauta sig með heróíni, sem gerir fréttirnar af fráfalli föður hans þó alltént bærilegri. Við fylgjum Patrick svo í gegnum rúmlega 35 ár af ævi hans og fáum að kynnast skrautlegu, hrottafengnu og oft fáránlegu persónugalleríinu sem eru fjölskylda hans og vinir í fimm þáttum sem hver um sig byggir á bók eftir Edward St Aubyn. St Aubyn byggði bókaflokkinn um Patrick Melrose að hluta til á eigin lífi og baráttu sinni við fíknina og uppgjör við áföll sem hann varð fyrir í barnæsku.

Bækurnar hafa lengi verið í uppáhaldi hjá leikaranum Benedict Cumberbatch, enda eflaust margt sem hinn Harrow-menntaði Cumberbatch gat tengt við í lífi yfirstéttardrengsins Patrick. Eftir að hafa dásamað bókaflokkinn í viðtali kom upp sú hugmynd að kvikmynda hann og Cumberbatch var þar lykilmaður sem bæði framleiðandi og aðalleikari. Hann fékk til liðs við sig skáldið David Nicholls til að aðlaga handritið og  þýska leikstjórann Edward Berger sem hafði sýnt það og sannað með vinnu sinni við Deutschland ‘83 og The Terror að hann hefur fantagott vald á períódu. Bækurnar hitta Patrick fyrir á mikilvægum stundum í lífi hans og tekur á fíkn hans, foreldramissi, meðferð, því að stofna eigin fjölskyldu og síðast en ekki síst á því að takast á við drauga fortíðarinnar og leiðinni í átt að bata. Sjónvarpsþættirnir eru eins trúir bókunum og mögulegt er, fyrir utan það að svissa röðinni á fyrstu tveimur þannig að við kynnumst Patrick fyrst sem fullorðnum manni í heljargreipum fíknar sinnar og fáum svo að sjá brot úr barnæsku hans sem gerir margt til þess að útskýra þann mann sem hann síðar verður. Eftir rússíbanareið fyrsta þáttarins sem er eins og langt atriði úr Trainspotting eða Fear & Loathing í Las Vegas, hægist á frásögninni og bæði Patrick og fólkið í kringum hann er dregið upp skýrari dráttum.

Cumberbatch er gífurlega fær leikari og hefur sannað það að það er enginn betri en hann í að leika ofurklára en erfiða menn. Hann á hér stórleik og er óhætt að segja að hann beri alla seríuna léttilega á herðum sér og á eflaust eftir að vinna til margra verðlauna á komandi ári fyrir túlkun sína. Hann hefur sagt að þar sem að hann hefur nú fengið að takast á við bæði draumahlutverk sín, Hamlet og Patrick Melrose geti hann allt eins sest í helgan stein. En við skulum nú vona að hann geri ekki alvöru úr þeirri hótun. Í raun eiga þessi hlutverk ýmislegt sameiginlegt. Bæði fíkillinn Patrick og hugsjúki Danaprinsinn eru að forðast það með öllum ráðum að kljást við atburði úr fortíðinni sem hafa eyðilagt fjölskyldur þeirra og eyðileggja þeir um leið alla í kringum sig sem sýna þeim nokkura umhyggju. Uppgjör er óhjákvæmilegt og dauðinn svífur yfir vötnum. Patrick er í raun ekki viðkunnaleg persóna en Cumberbatch lætur alltaf skína í beittan húmorinn og meðvitundina um eigin fáránleika sem veldur því að áhorfendur geta ekki annað en haldið með honum, jafnvel þegar hann hegðar sér eins og argasti fáviti. Það er svo á viðkvæmustu stundum Patricks sem Cumberbatch er sterkastur en hann er meistari í að sýna baráttuna við tilfinningarnar og sársaukann sem Patrick er að reyna að deyfa með öllu dópinu með ofursmáum titringi á stífri efri vör yfirstéttarbretans.

En þó að Cumberbatch sé aðalnúmerið hér sér hann alls ekki einn um að koma veröld Patricks til skila. Hugo Weaving hefur sjaldan verið áhrifameiri og meira ógnvekjandi en sem faðir Patricks, David Melrose. Í höndum Weaving er David brotinn maður sem hefur fyrir löngu þurft að sætta sig við að gefa drauma sína upp á bátinn til að lifa innihaldssnauðu og tilgangslausu lífi. Hann fær útrás fyrir gremju sína með því að terrorisera fjölskyldu sína og er eitt mesta skrímsli í mannsmynd sem sést hefur á skjánum lengi. Jennifer Jason Leigh leikur hina amerísku móður Patricks sem í stað þess að opna augun fyrir misþyrmingum eiginmannsins, kýs að loka á raunveruleikann með ógrynni af pillum og áfengi og helga sig því að bjarga heiminum í stað þess að bjarga heimilinu. Hinn ungi Sebastian Maltz túlkar Patrick á barnsaldri og gerir það ótrúlega vel. Stóru, viðkvæmu augun hans segja meira en þúsund orð og hjárta manns brestur fyrir hönd hans löngu áður en okkur er gert ljóst hvað raunverulega átti sér stað á Melrose heimilinu. Auk þessa þriggja er heill herskari af kunnulegum andlitum breskra leikara sem fara létt með að túlka eitraða vini Melrose foreldranna, en þar má helst kannski nefna Pip Torrens sem Nick Pratt, sem verður bara ógeðslegri og ógeðslegri eftir því sem hann birtist oftar.

Þó að Patrick Melrose sé óaðfinnanlega leikin og gríðarlega vel gerð míni-sería fer ánægja áhorfenda við að horfa á hana að miklu leyti eftir því hve mikla þolinmæði þeir hafa fyrir því að horfa á fólk sem berst við þá byrði að eiga of mikla peninga eyðileggja hvert annað í glæsivillu í Suður- Frakklandi. Bókunum tókst einstaklega vel að koma ádeilu sinni á yfirstéttina í Bretlandi til skila en þáttunum tekst það ekki alveg nógu vel. Það er stundum ekki alveg skýrt hvort að við eigum að finna til með þessu fólki þegar það er að baksa við að setja saman matarboð fyrir konungsfólk, eða finna til aðdáunar yfir glamúrnum og sér-bresku kaldlyndinu og yfirlætinu sem hefur einkennt þessa stétt um áraraðir. En það tekur þó ekki frá kjarna sögunnar sem fjallar um fjölskyldur og þann sársauka sem þær geta valdið meðlimum sínum kynslóð eftir kynslóð og það er saga sem vert er að segja.