Chelsea Manning sleppt úr fangelsi í dag

17.05.2017 - 06:25
Mynd með færslu
 Mynd: NN  -  Wikipedia
Chelsea Manning verður sleppt úr haldi í dag, eftir sjö ára fangavist í Fort Leavenworth-herfangelsinu í Kansas. Manning, sem þá var 22 ára gömul, lak gríðarmiklu magni gagna um stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Afganistan og Írak til Wikileaks árið 2010. Meðal gagnanna sem hún kom á framfæri voru myndskeið sem sýndu bandaríska hermenn stráfella óbreytta borgara í Írak.

Manning var handtekin skömmu síðar og viðurkenndi að hafa brotið lög, en sagðist hafa verið knúin áfram af ást á landi sínu og þjóð. Markmiðið með gagnalekanum hafi verið að vekja umræðu og ýta undir aukið gegnsæi og upplýsingaflæði varðandi stríðsrekstur Bandaríkjanna í Írak.

Chelsea Manning, sem þá hét Bradley Manning, var færð fyrir herrétt 2013 og dæmd í 35 ára fangelsi fyrir njósnir. Fyrir rétti baðst hún afsökunar á gjörðum sínum og sagðist gera sér grein fyrir að þær hefðu skaðað Bandaríkin. Ári síðar úrskurðaði dómstóll að transkonunni Bradley Manning skyldi heimilt að breyta nafni sínu lögformlega í Chelsea Elizabeth Manning. Ekki löngu síðar stefndi hún bandaríska varnarmálaráðuneytinu fyrir að hindra hana í að hefja hormónameðferðina sem er nauðsynlegur hluti kynleiðréttingarferlisins. Hélt hún því fram að þessi tálmun ráðuneytisins hefði leitt til þess að hún reyndi í tvígang að fremja sjálfsmorð. Kynleiðréttingarferlið hófst svo árið 2015.

Manning sótti ítrekað en árangurslaust um refsilækkun og náðun. Það var svo eitt af síðustu embættisverkum Baracks Obama að náða Chelsea Manning og stytta þar með fangavist hennar um 30 ár. Fólk skiptist mjög í tvö horn í afstöðu sinni til Chelsea Manning. Þar sem sumir - þeirra á meðal núverandi Bandaríkjaforseti - sjá ómerkilegan föðurlandssvikara sjá aðrir mikilvæga og ærlega baráttukonu fyrir upplýsingafrelsi, mannréttindum og réttindum hinsegin-fólks á heimsvísu.