Þann 22. desember ávarpaði Nicolae Ceausescu, forseti Rúmeníu, fjöldafund í miðborg Búkarest til að kveða niður orðróm um mótmæli í annarri rúmenskri borg. En honum að óvörum hafði óánægjan með einræðisstjórn hans náð alla leið til Búkarest og rúmenska þjóðin varð vitni að því í beinni útsendingu að Ceausescu var að missa tökin.
Í ljósi sögunnar fjallaði um rúmensku byltinguna í desember 1989, þegar Nicolae Ceausescu, einræðisherra til 24 ára, var hrakinn frá völdum og á endanum tekinn af lífi með konu sinni Elenu. Heyra má allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.
Fjöldafundur fór illa
Byltingin hófst um miðjan desember í borginni Timisoara í vestanverðri Rúmeníu. Upphaflega mótmælti fólk því að bera átti út vinsælan prest sem hafði gagnrýnt einræðisstjórnina.
En mótmælin mögnuðust þrátt fyrir að Ceausescu skipaði hernum að kveða niður mótmælin með valdi.
Þegar fregnir af atburðunum í Timisoara fóru að berast út um landið lét Ceausescu skipuleggja fjöldafund sér til dýrðar á torgi í höfuðborginni Búkarest. En fundurinn fór ekki eins og hann hafði ætlað. Ekki voru allir á torginu þar til að hylla hann.
Þegar Ceausescu hóf ávarp sitt af svölunum á höfuðstöðvum miðstjórnar kommúnistaflokksins, gerði fólk að honum hróp og köll, og einræðisherranum varð hverft við.
Búkarest varð að vígvelli
Ræðan, sem varð síðasta ávarp Ceausescus til þjóðarinnar, var sýnd í beinni útsendingu í rúmenska ríkissjónvarpinu.
Þegar fólk heima í stofu sá þessa ótrúlegu atburði á skjánum þustu enn fleiri á torgið, og von bráðar loguðu götur Búkarest í mótmælum og óeirðum.
Aftur beitti Ceausescu hernum gegn mótmælendum. Höfuðborgin varð að vígvelli og á endanum lágu um þúsund manns í valnum. En ekki leið á löngu þar til rúmenski herinn snérist gegn einræðisherranum, og þá átti hann ekki langt eftir.
Hlustið á allan þáttinn um rúmensku byltinguna í spilaranum hér að ofan.
Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18.10. Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV.