Fornleifauppgröftur er hafinn við Landsímahúsið í miðborg Reykjavíkur en þar á að rísa hótel á næstu árum. Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur sem stýrir framkvæmdunum, segir að búast megi við miklum menningarminjum á svæðinu.
Framkvæmdirnar hófust fyrir helgi en gert er ráð fyrir að kostnaður við uppgröftinn verði um 70 milljónir króna. Grafið verður á tveimur svæðum í miðborginni, um 700 fermetra svæði framan við Landsímahúsið og í Fógetagarðinum og rúmlega 500 fermetra svæði við Ingólfstorg. Uppgreftri á að vera lokið í vor og þá hefjast framkvæmdir við hótel.
Víkurkirkjugarður er undir hluta svæðisins. Hann á sér forsögu aftur til elleftu aldar en yngstu grafirnar í garðinum eru frá því snemma á nítjándu öld. Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur segir að það sé álitamál hvort raska eigi gröfum í garðinum. „Við vitum auðvitað að hér hefur átt sér stað mikið rask og búumst þess vegna við því að þessar grafir séu ekki óhreyfðar. Flestar af þessum gröfum sem við erum að búast við eru hreyfðar og þess vegna finnst mér, sem fagmanni og fornleifafræðingi, mikilvægara að koma þeim í horf og rannsaka þær heldur en ekki.“
Vala gerir ráð fyrir því að minjar frá elstu tíð finnist á svæðinu og það séu miklar menningarminjar. Stálgrindarhús verður byggt yfir svæðið sem rís fyrir áramót. Vala á ekki von á því að framkvæmdirnar hafi mikil áhrif á íbúa í miðborginni. „Við ætlum að reisa hús yfir svæðið þannig að við erum að grafa hérna undir þaki þannig að þeir ættu ekki að verða fyrir miklu raski. Það er líka örugglega bara áhugavert að koma og skoða, þetta er örugglega skemmtilegt að geta kíkt svona inn í fortíðina.“