Rikke Pedersen, forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar, býst ekki við að gosið í Grímsvötnum standi mjög lengi. Það sé að sönnu öflugara en síðast þegar gaus í Grímsvötnum, en þá stóð gosið yfir í fimm daga. Bogi Ágústsson, fréttamaður, spurði hana hvort hætta væri á að gosið ylli jafn miklum usla á flugumferð og gosið í Eyjafjallajökli í fyrra.

„Nei, ég efast um það í augnablikinu eins og veðurspáin er núna. Næstu daga er vindáttin ágæt fyrir Evrópu og askan fer í vestur og norður en svo vitum við ekki hvað verður í framhaldinu,“ segir hún. Hæð mökksins sé að minnka og menn vonist til að sú þróun haldi áfram.