Byggðakvóta yrði úthlutað til 10 ára

11.07.2017 - 18:43
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Starfshópur leggur til að byggðakvóta verði úthlutað til 10 ára til að skapa meiri festu og auka líkur á að kvótinn nýtist til uppbyggingar. Þá verði sveitarfélögum sem fá kvóta leyft að leigja hann sín á milli og nýta tekjurnar í annarskonar atvinnusköpun.

Ekki bara úthlutun heldur samningar um uppbyggingu

Byggðakvóta hefur verið úthlutað til eins árs í senn til bæjarfélaga þar sem hefur verið samdráttur í sjávarútvegi. Gagnrýnt hefur verið að aðstoðin komi eftir á og erfitt sé hægt að ráðast í uppbyggingu nema með lengri samningum. Nú stendur til að breyta kerfinu og á Breiðdalsvík í dag kynnti starfshópur tillögur, meðal annars um úthlutun til tíu ára í senn. „Í öðru lagi að það séu gerðir samningar um nýtinguna þannig að frekar en að þessu hafi verið úthlutað eins og hefur verið gert þá séu gerðir samningar sem ríkið og sveitarfélög gera og aðrir aðilar eftir því sem við á um byggðaþróun. Þannig að þessi verðmæti sem ríkið setur inn að þau séu nýtt með markvissari hætti,“ segir Þóroddur Bjarnason, formaður starfshóps um endurskoðun á byggðakvótakerfinu.

Aukinn sveigjanleiki

Hluta kvótans hefur reyndar verið úthlutað í samninga á vegum Byggðastofnunar, en þá oftast með kröfum um mótframlag og vinnslu á staðnum. Starfshópurinn leggur til meiri sveigjanleika í þeim efnum. Útgerð yrði til að mynda leyft að senda fiskinn burt til vinnslu en í staðinn þyrfti hún að setja verðmæti í aðra atvinnuuppbyggingu.

Reikniregla byggð á íbúaþróun strax umdeild

Sveitarstjórnarmenn gagnrýndu sumir að íbúaþróun frá 1983 yrði notuð við ákvörðun tonnafjölda. Það kemur illa út á Djúpavogi og Breiðdalsvík sem myndu missa almenna hluta byggðakvótans. Hann myndi hins vegar aukast umtalsvert á Fáskrúðsfirði og Vopnafirði þar sem sjávarútvegur er sterkur. „Það sker í augun að þau tvö sveitarfélög sem hafa misst hvað mestar aflaheimildir frá sér undanfarin ár að þau skuli vera þau einu hér á Austurlandi sem eru skert svo einhverju nemi,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps.

Sértæki byggðakvótinn óbreyttur í 10 ár

Reyndar hafa Djúpivogur, Breiðdalsvík og fleiri bæjarfélög fengið umtalsverðan sértækan byggðakvóta vegna áfalla og samkvæmt tillögunum yrði hann áfram til 10 ára. Þóroddur bendir á að ef menn vildu auka heimildir í byggðakvóta þá yrði það á kostnað línuívilnunar, strandveiða, skelbóta og annarra sértækra aðgerða. „Ef að það eru bara þessi 12 þúsund tonn til skiptanna að þá er það augljóst með að ef þú ætlar að auka stöðugleikann og vera með úthlutun til lengri tíma sem byggir ekki bara í því hvað breyttist í fyrra. Þá verður það þannig að sumir fá aðeins meira og aðrir fá aðeins minna. En á móti kemur að það er til lengri tíma og það verður mun meiri sveigjanleiki í því hvernig nýtingin er,“ segir Þóroddur. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV