Býflugum hefur fækkað gríðarlega síðustu átta árin og allt að níutíu prósent býflugna í búum drepast árlega. Flest bendir til þess að býflugnadauðinn sé afleiðing af breyttum aðferðum í landbúnaði.
Býflugur og önnur frævandi skordýr veita vistfræðilega þjónustu sem er ein helsta undirstaðan í fæðuneti heimsins. Albert Einstein benti á að ef frævandi skordýr eins og býflugur dæju skyndilega út myndi maðurinn aðeins lifa í nokkur ár. Nú hafa viðvörunarljósin kviknað. Ógn steðjar að bæði villtum og ræktuðum býflugum og hefur þeim fækkað gífurlega síðastliðin átta ár. Frá 2006 hefur býflugum stöðugt fækkað og býflugnabændur tilkynna árlega um óútskýranlegan dauða býflugna sinna þar sem allt að 90% þeirra hafa drepist. Tilkynningarnar koma frá öllum heimshornum, hvort sem er í Norður-Ameríku, Mið-Ameríku, Suður-Ameríku, Asíu eða Evrópu. Heildarfækkun býflugnabúa á þessum stöðum er talin hafa numið einum þriðja á ári hverju frá 2006. Menn hafa miklar áhyggjur af þessari þróun enda mikið í húfi fyrir vistkerfið og efnahag heimsins. Frævun býflugna er metin á fimmtán milljarða Bandaríkjadala í aukinni uppskeru á ári hverju eða sem nemur sautján hundruð milljörðum íslenskra króna.
Skyndilegur dauði býflugnasamfélaga eða býflugnabúa er fyrirbæri sem hefur fengið viðurnefnið Colony Collapse Disorder (CCD) eða röskun og hrun býflugnasamfélaga. Þrátt fyrir umfangsmiklar rannsóknir á býflugnadauðanum allt frá því að hans varð fyrst vart hefur ekki tekist að skilgreina eðli hans nákvæmlega. Þessar rannsóknir benda til þess orsakir býflugnadauðans sé að finna í mörgum mismunandi umhverfisþáttum sem hafa innbyrðis áhrif. Flest bendir til þess að býflugnadauðinn sé afleiðing af þeim miklu breytingum sem maðurinn hefur gert á náttúrufari heimsins með breyttum aðferðum í landbúnaði. Stöðugt meira land er brotið undir akra og heilu héruðin sérhæfa sig í ræktun á sömu plöntutegundinni. Fyrir skordýrin eru áhrif þess fábreytt fæðuframboð og jafnvel fæðuskortur á stórum landsvæðum þegar blómgunartími ráðandi plöntu er liðinn. Samfara aukinni einræktun eiga sníkjudýr og plöntusjúkdómar auðveldara með að breiðast út. Til að mæta því nota bændur illgresis- og skordýraeitur í auknum mæli. Með tæknivæddari og umfangsmeiri landbúnaði hefur þörfin fyrir þjónustu býflugna aukist. Víða um heim eru býbændur sem helga sig býflugnarækt með mörg hundruð eða jafnvel mörg þúsund býflugnabú í sinni umsjá. Margir þeirra eru staðbundnir en aðrir keyra býflugnabúin oft mörg þúsund kílómetra leið í risavöxnum flutningabílum til að ná blómgunartímanum þegar hann stendur sem hæst á hverjum stað. Þannig fá flugurnar stöðugan og greiðan aðgang að fóðri til hunangsgerðar og býræktendurnir fá greitt frá bændum á svæðinu fyrir frævunarþjónustu flugnanna.
Allar þessar breytingar á lifnaðar- og umhverfisþáttum eru taldar valda auknu álagi á býflugurnar. Þetta álag eða stress kemur niður á ónæmiskerfi þeirra og gerir þær viðkvæmari fyrir sjúkdómum og náttúrulegum óvinum eins og Varroa maurum, bjöllum, sveppa- , bakteríu- og veirusýkingum.
Í heilbrigðu býflugnabúi er ekki óalgengt að 20 - 80.000 flugur vinni saman að uppbyggingu og viðhaldi búsins. Í búinu er flókið samfélag þar sem hver fluga hefur sérhæfðu hlutverki að gegna. Verkefni þeirra breytist með aldrinum. Ungar flugur sinna „innanhússtörfum" eins og að umönnun lirfa, umhirðu drottningarinnar, þrifum og byggingastörfum. Þegar líða fer að lokum æviskeiðsins fara þær að sérhæfa sig í hættumeiri störfum eins og vörnum við búið og fæðuöflun. Þær fljúga oft um langan veg til að finna þau blóm sem gefa mesta og besta næringu hverju sinni.
Sameiginleg einkenni þeirra búa sem hafa drepist af völdum CCD er að fullorðnar vinnuflugur hafa yfirgefið búin í stórum stíl, með þeim afleiðingum að búið nær ekki að halda uppi lífsnauðsynlegri starfsemi og íbúar þess drepast. Í búinu finnast fáar fullorðnar flugur á lífi og það einkennilega er að dauðar flugur finnast hvorki innan þessara búa, né utan. Í búunum hefur óklakið ungviði verið yfirgefið sem ekki er þekkt undir neinum öðrum kringumstæðum. Þar finnast gjarnan birgðir af hunangi, frjókornum og blómasafa. Drottningin finnst gjarnan lifandi i búinu sem merkir að samfélagið hafi ekki "ákveðið í heild sinni" að yfirgefa búið. Ný tegund af skordýraeitri er talin líkleg ástæða býflugnadauðans eins og rakið verður nánar í Spegli morgundagsins.
Frekari fróðleikur um býflugur og býflugnadauða:
Hér fjallar Damian Carrington um dauða býflugna í breska blaðinu Guardian.
Egill Rafn Sigurgeirsson formaður Býflugnabænda fjallar um "Lífeðlisfræði samfélagsins."
Hannah Feltham, Kirsty Park og Dave Goulson með greinina „Field realistic doses of pesticide imidacloprid reduce bumblebee pollen foraging efficiency." í Ecotoxicologi.
Marla Spivak og Gary Reuter um býflugnadauða: „Why are honey bees collapsing?"
Rebecca Trager um skordýraðeitrið sem drepur býflugur „Controversial pesticides down but not out."
Reglur Evrópusambandsins
Meira frá Evrópusambandinu „Bees & Pesticides: Commission goes ahead with plan to better protect bees."
Wikipedia um dauða býglugnasamfélaga „Colony Collapse Disorder"
Skýrsla Bandaríska landbúnaðarráðuneytisins um býflugnadauða „Colony Collapse Disorder Progress Report."
Meira frá Bandaríska landbúnaðarráðuneytinu um málið „Honey Bees and Colony Collapse."
Wikipedia um „Neonicotinoid"
Umhverfisstofnun „Þjónusta vistkerfa - framtíðartrygging okkar."