Býður kúnnum að flytja viðskiptin annað

06.06.2014 - 18:48
Mynd með færslu
MP banki býður eignaminni viðskiptavinum sínum aðstoð við að flytja viðskipti sín annað, vilji þeir ekki greiða 5.000 krónur á mánuði fyrir að vera í viðskiptum við bankann.

Þetta kemur fram í bréfi sem viðskiptavinir með innan við tvær milljónir króna í formi innlána, séreignarsparnaðar, eignastýringar eða útlána fengu í dag.

Í bréfinu segir að bankinn vilji leggja áherslu á að þjónusta fyrirtæki og einstaklinga með umtalsverð umsvif og þörf fyrir sérhæfða fjármálaþjónustu. Því hafi verið ákveðið að innheimta 60 þúsund króna viðskiptagjald á ári af þeim sem eru með minna en tvær milljónir hjá bankanum. Viðskiptagjaldið á að greiða mánaðarlega, 5.000 krónur í senn, frá og með 1. ágúst. Í bréfinu eru viðskiptavinir beðnir að hafa samband ef þeir telja viðskipti sín ekki vera undir viðmiðunum. Einnig er tekið fram að kjósi viðskiptavinir að færa viðskipti sín annað muni starfsmenn bankans aðstoða þá við það eftir fremsta megni.