Búa sig undir að leysa sjómannadeilu á morgun

08.01.2017 - 12:17
Sjómenn við löndun.
 Mynd: RÚV
Sjómenn búa sig undir að leysa deilu sína við útgerðarmenn á morgun eða næstu daga. Þetta segir varaformaður Sjómannasambands Íslands. Hann segir að lög á verkfallsaðgerðir myndu ergja sjómenn óendanlega mikið.

Verkfall sjómanna hefur staðið yfir í nokkrar vikur og deiluaðilar hafa undanfarið verið svartsýnir á að sátt náist. Sjómenn hafa boðað til mótmæla við húsakynni Ríkissáttasemjara á morgun. Þeir sem skipuleggja mótmælin segja að þeir séu búnir að fá gjörsamlega upp í kok eftir að það lak út að til standi að setja lög á verkfallið. Þá ofbjóði sjómönnum hrokinn og virðingarleysið sem þeim hafi verið sýndur undanfarin ár. Konráð Þ. Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands, segist ekki vita hverjir standi fyrir mótmælunum.

„Það eru bara einhverjir sjómenn sem hafa tekið sig til. En ég vil ekkert endilega kalla þetta mótmæli. Ég vil kalla þetta stuðning við samninganefndirnar. Ekki eru þeir að mótmæla okkur. Miðað við þann stuðning sem við finnum lít ég ekki þannig á. Þetta er bara stuðningur við samninganefndir sjómanna sem eru í karphúsinu að vinna,“ segir Konráð.

Nú eru einhverjir farnir að spá því að lög verði sett á þetta verkfall, það hefur meðal annars Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata gert, gerir þú ráð fyrir því að lög verði sett á þetta verkfall?

„Nei ég ætla að vona að Guð forði okkur frá því að menn taki þá ákvörðun að setja lög á verkfallið. Við erum tiltölulega nálægt því að leysa þetta og við munum gera það, fáum við frið til þess. En Guð forði okkur frá því að menn fari að setja lög. Og mér finnst þetta mikill ábyrgðarhluti hjá Birgittu að koma með þetta að það sé hugsanlega verið að undirbúa lagasetningu. Menn taka því mjög alvarlega þegar alþingismaður talar svona.“

„Okkur mun takast það“

Konráð segir að það myndi hafa mjög neikvæð áhrif, ef lög yrðu sett á deiluna.

„Það myndi ergja sjómenn óendanlega mikið. Og framhaldið, þegar lögin myndu renna út, kjarasamningar yrðu aftur lausir, það yrði mjög erfitt fyrir menn að standa frammi fyrir því sem þá gerist.“

Og þið eruð ekkert sérstaklega að búa ykkur undir slíkt?

„Alls ekki. Við erum að búa okkur undir að leysa þessa deilu á morgun eða næstu daga, tiltölulega hratt ef vilji er til sem ég held að sé. Ég held að það sé mikill vilji hjá útgerðarmönnum að leysa deiluna. Og það er vilji hjá okkur til þess og okkur mun takast það,“ segir Konráð.