„Það er eitt af því sem lýsir því hvað það er brýnt að endurskoða stjórnarskrána frá grunni,“ segir Sigríður Ólafsdóttir, í Stjórnarskrárfélaginu, um nýfallinn dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, sem dæmdi Erlu Hlynsdóttur, fyrrverandi blaðamanni á DV, í hag í máli hennar gegn íslenska ríkinu.

Rætt var við Sigríði og Þóri Baldursson stjórnarmenn í Stjórnarskrárfélaginu í Morgunútgáfunni í morgun. Sigríður segir að nýju stjórnarskrárdrögin sem séu til samþykktar í þinginu hefði varið réttindi Erlu betur en sú sem nú er í gildi. „Þar er sérstaklega tekið á málfrelsi í fjölmiðlum og frelsi fjölmiðlafólks og betur haldið utan um málfrelsi en í gömlu stjórnarskránni.“

Í gildandi stjórnarskrá sé hvergi minnst á fjölmiðla, enda ekki búið að finna upp það orð þegar hún var rituð. „[Í gömlu stjórnarskránni] eru allskonar hugtök sem hreinlega var ekki var búið að finna upp á þeim tíma. Það er eitt af því sem lýsir því hvað það er brýnt að endurskoða hana frá grunni.“

Áhugaleysi almennings á stjórnarskrárbreytingum skýrist helst af því að fólk sé vegmótt eftir búsáhaldabyltinguna sem litlu hafi breytt. Þá hafi stjórnmálamenn ekki svarað kalli eftir nýju Íslandi.