Varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis tekur undir með landsfundi Sjálfstæðisflokksins um upptöku nýrrar myntar og efast um að Ísland verði gildandi í alþjóðaviðskiptum með krónuna.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti í gær að kanna skuli til þrautar upptöku myntar sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.Ertu sammála þessari ályktun?
„Já, ég er sammála henni, ég held að ef við ætlum að gera okkur gildandi í alþjóðlegri viðskiptum og samkeppni þá er ég ekki viss um að við getum verið með örmynt til eilífðar,“ segir Brynjar.
Á hverju byggir þú það?
„Ja, þetta er ekki miðill sem er gjaldgengur í alþjóðaviðskiptum, það segir sig sjálft. Meðan við erum með þennan óstöðugleika og háa vaxtakostnað og vesen þá er þetta erfiðara.“
Hann segir að ályktun landsfundar verði tekin alvarlega en telur þó að lítið verði gert fyrr en búið er að aflétta höftum.
„Ég met það svo að það sé alveg útilokað að gera nokkuð í þessum málum fyrr.“
Ekki náðist í Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, við vinnslu fréttarinnar.