Fimmti hver kjúklingur sem Matvælastofnun skoðaði í sláturhúsum á Suðvesturlandi í fyrra var með brunasár á fótum. Þéttsetnum húsum með blautu gólfi er helst um að kenna.
Kjúklingar, sem eru ræktaðir til kjötframleiðslu, ala ævina yfirleitt í þéttsetnum húsum. Ef troðningurinn er of mikill, og undirlagið þess vegna blautt, geta fuglarnir fengið sársaukafull brunasár neðan á fæturna, svonefndan dritbruna. Þvagsýra í driti kjúklinganna hefur líka slæm áhrif. Sárin eru flokkuð í væg og alvarleg brunasár. Samanburð má sjá í sjónvarpsfréttinni hér að ofan.
Matvælastofnun skoðaði í fyrra fætur kjúklinga í úrtaki sem komu til slátrunar á Suðvesturlandi. Þóra Jónasdóttir, dýralæknir dýravelferðar hjá Matvælastofnun, segir að brunasár hafi fundist á rúmlega 20% kjúklinganna. Þar af hafi 2-3% haft alvarleg brunasár. Þóra segir að þetta sé sambærilegt og í Danmörku.
Samkvæmt nýrri reglugerð um velferð alifugla, sem var gefin út í febrúar, ber framleiðendum að bregðast strax við með bættri umhirðu, og fleiri aðgerða er krafist. „Ef það koma upp vandamál eins og dritbruni, að þá verða þeir að minnka þéttleikann til að bregðast við,“ segir Þóra. Spurð hvort framleiðendur geri það segir Þóra Matvælastofnun sé rétt að byrja að framfylgja reglugerðinni. Hún sé nýkomin og vinnan sé að hefjast.