Ófært er nú fyrir gangandi fólk frá Illakambi og inn í Múlaskála í Lónsöræfum þar sem tæplega sjötíu ára göngubrú er hrunin. Stag sem hélt brúnni, virðist hafa gefið sig í illviðri um áramótin. 

Fáir ferðamenn leggja leið sína inn í náttúruparadísina í Lónsöræfum enda er ekki fært þangað fyrir venjulega fólksbíla. Til þess að komast að Múlaskála þarf að þræða sig meðfram Illakambi með því að grípa í keðju og ganga svo yfir brúna yfir Jökulsá í Lóni alls um klukkustundarleið. En núna er leiðin ófær.

„Ja það er ekki hægt að labba þangað inn eins og nema bara norðan frá. En hefðbundin göngleið frá veginum að skála er ófær. Brúin hefur hrunið í miklu norðanveðri sem gekk yfir núna um daginn, sennilega á gamlársdag,“ segir Jón Bragason hjá Ferðafélagi Austur-Skaftafellssýslu.

Hvers vegna hrundi brúin?

„Það gefur sig hliðarstag vegna þess að það hrynur steinn úr brekkunni og niður á aurinn,“ segir Jón. Hann segir að steinninn sem hrundi sé mjög stór.

Eina leiðin sem núna er fær er að norðanverðu. Það eru tvær dagleiðir. „Og yfir hávetrartímann er það ekki hægt,“ segir Jón.

Ferðafélagið á Múlaskála en Vegagerðin sá um að smíða göngubrúna. Jón segir að Vegagerðin hafi verið látin vita af því að brúin sé farin. „Menn eru allir af vilja gerðir þar heyrist mér að skoða málið og athuga hvað þeir geta gert,“ segir Jón. 

Málið uppgötvaðist á sunnudag þegar Jón fór við annan mann inn í Lónsöræfi til að kanna ástandið á skálanum. 

Ykkur hefur brugðið í brún?

„Svona heldur betur því þetta var eitthvað sem ég átti alls ekki von á,“ segir Jón. Brúin hafi verið reist 1953 eða 1954.
 

Myndskeiðið sem fylgir fréttinni er úr þættinum Ferðastiklur.