Gunnhildur Una Jónsdóttir átti við djúpt þunglyndi að stríða á árum áður og var í kjölfarið sett í raflostmeðferð. Talið er að meðferðin hafi tekist vel en afleiðingarnar voru meðal annars glataðar minningar. Gunnhildur hefur skrifað um reynslu sína í bókinni Stórar stelpur fá raflost sem gagnrýnendur Kiljunnar eru ánægðir með.

Gunnhildur Una Jónsdóttir er þriggja barna einstæð móðir sem upplifði skelfilegar afleiðingar eftir raflostmeðferð sem hún sótti vegna mikils þunglyndis síns. Hún glataði minningum sínum, veruleikinn varð framandi og fortíðin ósamstæð og brotakennd. Í bókinni Stórar stelpur fá raflost segir Gunnhildur einstaka sögu sína, hvernig henni tókst að fóta sig á ný eftir áfallið, lýsir baráttunni við sjúkdóminn og leitinni að fortíðinni og sjálfri sér. 

Gagnrýnendur Kiljunnar, þau Sigurður Valgeirsson og Kolbrún Bergþórsdóttir hrifust af frásögninni og telja frásagnarstílinn kallast vel á við leit hennar að hinum glötuðu minningum. „Ég var mjög hrifinn af þessari bók, það eru margar góðar pælingar í henni. Svo er auðvitað bara lofsvert að hún segir sögu sína og opnar fyrir manni. Maður sér hvað fjölskyldan hennar styður hana mikið, hvað þetta nær til margra þegar fólk glímir við svona,“ segir Sigurður Valgeirsson. „Svo finnst mér frásagnaraðferðin, sem eru svona smá bútar, ríma við minnisleysið. Hún er að kalla fram ýmislegt sem hún man eða man ekki, henni hefur verið sagt og hún gerir að minningum hjá sér. Það kemur fram í löngum og stuttum bútum og í gegnum þá fær maður mynd af henni. Sem mér finnst hetjuleg,“ segir Sigurður jafnframt.

Kolbrún Bergþórsdóttir var sama sinnis og Sigurður og nefndi einnig frásagnarstílinn. „Þetta er dálítið brotakennd frásögn en hún hæfir efninu. Mér fannst það gera mikið fyrir bókina þegar hún rekur sögu langömmu sinnar, sem var bundin niður á hest og flutt á Klepp. Hún blandar þeirri frásögn saman við sem mér fannst mjög gott, ég hefði gjarnan viljað fá aðeins meira af fjölskyldusögunni. Það gefur þessu dýpt,“ segir Kolbrún. Sigurður bætir því við að það séu margar góðar og eftirminnilegar yrðingar í bókinni sem hafi glatt hann við lesturinn. „Hún segir „Allir eiga sitt slétta og fellda andlit út á við, hitt geymum við fyrir kæra vini og nána fjölskyldu“. Svoleiðis er það nú“.