Vald yfir eigin líkama
Verk Carolee Schneemann þykja mjög merkileg þegar kemur að framsetningu líkamans í myndlist 20. aldar og eins með tilliti til kynjapólitíkur og femínisma. „Nálgun hennar á líkamann var ekki sú upphafna sýn á hann sem listasagan hefur miðlað til okkar í gegnum aldirnar. Hún vildi kanna líkama konunnar sem það „taboo“ sem hann oft er, ekki síst kynferðislega. Alla tíð leit hún líka á sig sem málara, þó svo að hún sé þekktust fyrir gjörninga sína, ljósmynda- og vídeoverk.“
Stigið út úr rammanum
„Hún var algjör brautryðjandi í því hvernig hún sviðsetur sig, sitt kyn og sinn líkama í list sinni,“ segir Ragnar Kjartansson um Schneemann. „Síðan er þetta hugsunin í allri list í dag, þetta snýst svo mikið um það hver maður er. Áður en Carolee Schneemann kom til hafði fólk á tilfinningunni að það væru bara svona hvítir karlar eins og ég sem gerðu myndlist. Þá skipti þetta ekki eins miklu máli, hver maður er. Sjálfsmyndarpólitík hennar kemur til á mjög náttúrulegan hátt. Hún tekur nakta kvenlíkamann úr listasögunni og allt í einu stígur hann út úr striganum og er bara með kjaft og alveg brjálæðislega kúl!“
„Hún var voða góður vinur okkar og hugsaði fallega um okkur,“ segir Ragnar og Ingibjörg bætir við að sér hafi fundist Carolee á einhvern hátt verndari þeirra hjóna. „Það er ekki slæmt að eiga þannig. Hún var ekki bara mikill listamaður heldur líka svona verndari ástarinnar.“
Rætt var við Ingibjörg og Ragnar um Carolee Schneemann í Víðsjá á Rás 1. Viðtalið er allt hér í spilaranum fyrir ofan, en þátturinn er á dagskrá þriðjudaga til fimmtudag kl. 16:05.