Hraunrennslið í Holuhrauni hefur breytt um hegðun á undanförnum dögum og streymir nú í norður. Vísbendingar eru um að rásir séu að myndast undir yfirborði hraunsins, sem þýðir að hraunið gæti runnið enn lengra.
Lára Ómarsdóttir fréttamaður fór á gosstöðvarnar í dag. Hraunið breiðir nú úr sér yfir 76 ferkílómetra svæði. Vestast í hrauninu er gýgurinn sjálfur sem enn framleiðir hraun af krafti og heldur áfram að breyta landslaginu.
Gro Pedersen, jarðfræðingur hjá Jarðvísindastofnun HÍ, segir að að hraunið renni nú að miklu leyti í norður. Það megi sjá hraunelfur renna að norðanverðunni og rásin hafi breytt um stefnu. Hún segir að hraunrennslið fari líklega dvínandi eftir því sem á líði en það sé erfitt að sjá að eitthvað hafi breyst að ráði undanfarið.